Þórunn Inga Ingjaldsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Verði. Hún hefur störf 1. janúar næstkomandi og mun taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins.
„Ég er full tilhlökkunar og þakklát fyrir að fá tækifæri til að leiða sölu og þjónustu hjá Verði með öllu því frábæra fólki sem þar starfar. Vörður og Arion eru á spennandi sameiginlegri vegferð sem býður upp á ótal tækifæri. Ég hlakka til að kynnast betur starfsfólki og viðskiptavinum Varðar,“ segir Þórunn Inga.
Þórunn kemur til Varðar frá Samskipum þar sem hún hefur sinnt starfi forstöðumanns markaðs- og samskiptasviðs frá árinu 2019. Þar bar hún ábyrgð á þróun á stafrænni þjónustu, upplifun viðskiptavina, sjálfbærni, innri og ytri markaðsmálum og samskiptum.
Áður starfaði Þórunn sem framkvæmdastjóri íþróttasviðs hjá Altis (Under Armour á Íslandi) og sem vörumerkjastjóri hjá Icepharma (Nike á Íslandi). Hún er þar að auki viðskiptafræðingur með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands.
„Þórunn er reynslumikil og býr yfir fjölbreyttri þekkingu þegar kemur að sölu, þjónustu og markaðsmálum sem mun nýtast félaginu vel. Við hlökkum til að fá Þórunni til liðs við okkur,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar.