Þórunn Marinósdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Viðskiptatekna og sölu hjá Isavia þar sem hún ber ábyrgð á tekjum Isavia öðrum en flugtengdum tekjum, sem eru t.a.m. af verslun og þjónustu, bílastæðum ásamt samgöngum og fasteignum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Áður starfaði Þórunn hjá Ásbirni Ólafssyni sem aðfanga- og gæðastjóri, sem framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar hjá Líflandi, þar sem hún rak meðal annars fimm verslanir fyrirtækisins ásamt því að leiða söludeildir á landbúnaðarsviði og matvælasviði.
Þórunn starfaði í 20 ár hjá Eimskip, lengst af sem forstöðumaður viðskiptaþjónustu.
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia:
„Þekking og reynsla Þórunnar af þjónustumálum, sölumálum, verslunarrekstri og stefnumótun mun nýtast vel í þeim verkefnum sem framundan eru við að auka viðskiptatekjur og sölu á Keflavíkurflugvelli. Þórunn hefur mikla og farsæla reynslu sem stjórnandi og mun styrkja teymið enn frekar. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna og hlökkum til að takast á við verkefni framtíðar með henni.“
Þórunn Marinósdóttir, forstöðumaður Viðskiptatekna og sölu hjá Isavia:
„Ég er virkilega spennt að hefja störf hjá Isavia. Þetta er lifandi vinnuumhverfi og mörg spennandi verkefni framundan enda eigum við von á því að allt að 5,7 milljón farþegar fari í gegnum Keflavíkurflugvöll í ár. Tækifærin eru því fjölmörg í að auka tekjur félagsins. Hjá Isavia starfar fjölbreyttur og öflugur hópur af hæfileikaríku fólki sem ég er stolt af að fá að vinna með.“