Ingunn Þorvarðardóttir, Hildur Jóna Þorsteinsdóttir og Erlingur Þór Tryggvason eru þrír nýir vörustjórar hjá Verði.

Ingunn Þorvarðardóttir er menntaður hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og verkefnastjóri MPM frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur unnið í tjónadeild Varðar frá 2015, fyrst sem sérfræðingur í sjúkra- og slysatjónum og síðar sem teymisstjóri sjúkra, slysa- og ferðatjóna. Áður starfaði hún m.a. sem hjúkrunarfræðingur hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Hildur Jóna Þorsteinsdóttir er viðskiptafræðingur með MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hún vann hjá VÍS árin 2008-2019, fyrst sem vörustjóri og síðar sem deildarstjóri einstaklingstrygginga og forstöðumaður áhættumats og útgáfu. Hildur var framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar FH árin 2020-2022 og vörustjóri VW bíla hjá Heklu árið 2022.

Erlingur Þór Tryggvason er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í System Dynamics frá UIB í Bergen. Hann vann hjá VÍS frá árinu 2017 sem vörustjóri og sérfræðingur í stofnstýringu. Áður starfaði hann sem lánastjóri hjá Íslandsbanka.