Atli Freyr Hallbjörnsson verkefnastjóri, Marín Ingibjörg McGinley forritari og Einar Valur Aðalsteinsson lausnaarkitekt hafa verið ráðin til starfa hjá stafrænu stofunni Júní.

Atli Freyr hefur áður starfað sem sérfræðingur í hagþjónustu fyrir Akureyrarbæ og sem sérfræðingur í sjálfvirknivæðingu hjá endurskoðunarfyrirtæki í New York. Atli er með BS-gráður í vélaverkfræði og tölvunarfræði, en hann lauk meistaranámi í vélaverkfræði frá Columbia-háskóla í Bandaríkjunum síðastliðið vor. Atli býr því yfir þekkingu á tæknilausnum, greiningarvinnu og verkefnastjórnun.

Marín Ingibjörg er hugbúnaðarverkfræðingur að mennt, en áður en hún hóf störf hjá Júní starfaði hún hjá Icelandair sem forritari innan sjálfvirknivæðingarteymis flugfélagsins og í kjölfarið sem bakendaforritari fyrir CRM teymið sem og fyrir snjallforrits- og vefteymi Icelandair. Hún býr því yfir reynslu af bakendaforritun, vefforritun og sjálfvirknilausnum.

Einar Valur býr yfir umfangsmikilli reynslu úr fjölbreyttum áttum, en hann er bæði með BA gráðu í myndlist frá LHÍ og BS gráðu í tölvunarfræði frá HR. Eftir að hafa starfað í tölvugeiranum í Reykjavík um árabil fluttist hann til Ástralíu þar sem hann starfaði sem hugbúnaðarhönnuður, verkefnastjóri og forritari hjá fyrirtækjum á við REA Group í tæpan áratug. Í kjölfarið fluttist hann svo aftur til Íslands, þar sem hann tók til starfa sem Enterprise Architect hjá Icelandair áður en hann var ráðinn til Júní.

„Það er mikill fengur að fá Atla, Marín og Einar Val í hópinn,“ segir Arndís Thorarensen, framkvæmdastjóri og einn meðeiganda Júní.

„Við erum sífellt að safna í breiðari og breiðari þekkingarbanka innan fyrirtækisins með því að ráða til okkar flinkt starfsfólk með reynslu úr ýmsum áttum – því verkefnin og tækifærin eru sífellt að verða fleiri og stærri. Það eru mjög spennandi tímar framundan hjá okkur, því við erum með gífurlega sterka og fjölbreytta liðsheild sem býr yfir margs konar þekkingu.“

Júní er stafræn stofa og þróunarfyrirtæki sem veitir fyrirtækjum og stofnunum heildstæða þjónustu við allt sem viðkemur hinum stafræna heimi – með því að veita ráðgjöf á heimsmælikvarða, tímalausa hönnun og forrita tæknilausnir sem eru töfrum líkastar.