Kynnisferðir, sem starfar undir vörumerkinu Icelandia, hafa ráðið inn þrjá nýja framkvæmdastjóra í stjórnendateymi sitt.

Hilmar Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ferðasviðs. Þóra Eggertsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármála og fasteigna og Ófeigur Friðriksson framkvæmdastjóri Bílaleigu Kynnisferða.

Hilmar starfaði áður sem framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Special Tours frá 2015 til 2022. Sem framkvæmdastjóri ferðasviðs mun hann bera ábyrgð á afkomu, vöruframboði og þjónustu Reykjavik Excursions, Flybus og Hálendisrútunnar. Hilmar er einnig viðskiptafræðingur að mennt.

Þóra kemur til Kynnisferða frá flugfélaginu PLAY þar sem hún byggði upp fjármálasvið félagsins og leiddi meðal annars skráningu félagsins á Nasdaq First North Iceland. Áður var hún hjá Icelandair og sem fjármálastjóri Air Iceland Connect frá 2017. Þóra mun leiða fjármálasvið samstæðu Kynnisferða með áherslu á samþættingu fjármála í kjölfar samruna félagsins við önnur ferðaþjónustufyrirtæki á síðustu misserum. Þóra er með mastersgráðu í markaðsmálum og MBA.

Ófeigur starfaði í átta ár hjá AVIS og einnig hefur hann starfað sjálfstætt við sölu- og þjónustuþjálfun. Til Kynnisferða kemur Ófeigur frá Bílaleigu Reykjavíkur þar sem hann starfaði sem rekstrarstjóri. Hann mun leiða rekstur Bílaleigu Kynnisferða sem er umboðsaðili Enterprise, Alamo og National vörumerkjanna, og verður félagið með tæpa 1.000 bíla í rekstri í sumar. Ófeigur er stjórnmálafræðingur að mennt.

„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Þóru, Ófeig og Hilmar inn í framkvæmdastjórnarteymið okkar. Stefna félagsins er að veita viðskiptavinum okkar afar fjölbreytta þjónustu með áframhaldandi áherslu á gæði og öryggismál, ásamt framúrskarandi þjónustu og gera þannig upplifun okkar gesta sem allra besta þegar þeir heimsækja Ísland,“ Segir Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða.