Elsa Bjarnadóttir, Rakel Björt Jónsdóttir og Ásþór Björnsson hafa verið ráðin til stafrænu stofunnar Kolibri. Elsa hefur verið ráðin sem ráðgjafi og teymisþjálfari, en Rakel og Ásþór sem forritarar. Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu.

Elsa kemur til Kolibri frá flugfélaginu PLAY þar sem hún leiddi nýsköpun á stafrænum miðlum. Hún starfaði einnig sem vörustjóri fyrir vefinn og bókunarvél félagsins. Fyrir það starfaði hún hjá KLAK - Icelandic Startups og Stafrænu Íslandi. Elsa stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík og hefur lokið námi í vefþróun frá Tækniskólanum. Hún býr í Garðabæ ásamt eiginmanni sínum Kristjáni og tveimur börnum þeirra. Elsa lýsir sér sem orkubolta sem elskar að hlaupa í náttúrunni og að ferðast.

Rakel Björt útskrifaðist sem tölvunarfræðingur árið 2015 og býr í Vesturbænum ásamt eiginmanni sínum Braga, börnum þeirra og hundi. Hún starfaði hjá Kolibri frá árunum 2017-2021, fór þá til Grid og loks til Alda þar sem hún leiddi tækniákvarðanir og forritun á hluta vörunnar. Rakel hefur ástríðu fyrir framendaforritun, aðgengismálum og góðri teymisdýnamík og hefur nú snúið aftur til Kolibri.

Ásþór útskrifaðist með BS í tölvunarfræði úr Kaupmannahafnarháskóla sumarið 2023 og hefur starfað hjá IO Interactive og 3Shape í Danmörku. Hann hefur tekið þátt í forritunar- og gervigreindarkeppnum en sú reynsla hefur reynst honum einstaklega vel þegar þarf að takast á við krefjandi tækniáskoranir. Ásþór stundar körfubolta og klifur af kappi og spilar á hljómborð í stuðhljómsveit um helgar.

„Ég er hæstánægð með ráðningu þessara magnaða fólks. Elsa kemur sterk inn með einstaka reynslu og mikla þekkingu á vefmálum. Ásþór hefur með sinni reynslu af gervigreind og djúpri tækni aukið breidd og þekkingu í forritarahópnum hjá Kolibri. Síðast en ekki síst, þykir mér er virkilega frábært að fá Rakel aftur til starfa hjá Kolibri því það er svo ánægjulegt þegar fólk kýs að koma aftur til starfa hjá okkur. Rakel er mikil talskona kvenna í tækni sem er eitthvað sem við leggjum mikla áherslu á hér hjá Kolibri,“ segir Anna Signý Guðbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Kolibri.

Um Kolibri

Kolibri hefur sérhæft sig í stafrænni hönnun og þróun frá stofnun árið 2007 og hefur unnið með fjölbreyttum fyrirtækjum og stofnunum hér og landi sem og erlendis. Núverandi viðskiptavinir Kolibri eru m.a. TM, HMS, dómsmálaráðuneytið, Listasafn Íslands, Orkusalan og Reiknistofa fiskmarkaða.