Regína Björk Jónsdóttir hefur verið ráðin viðskiptastjóri Wallet Innleiðinga hjá Leikbreyti, Mimoza Róbertsdóttir verkefnastjóri Wallet lausna og Kristófer Antonsson tæknimaður.
Regína starfaði áður sem verkefnisstjóri hjá Ljósleiðaranum, þar áður sem viðskiptastjóri hjá fyrirtækjasviði Nova og starfaði um árabil hjá Arion banka. Regína er vottaður fjármálaráðgjafi frá Opna háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún nam viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.
Mimoza er tölvunarfræðingur Bsc. frá Háskóla Íslands og starfaði áður hjá Högum þar sem hún hafði umsjón með vefverslun Zara tískuvöru verslunar.
Kristófer stundar nám á tölvufræðibraut Tækniskólans en mun starfa samhliða námi hjá Leikbreyti.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá þau öll til starfa á mikilvægum tímapunkti fyrirtækisins sem er í miklum veldisvexti með auknum verkefnum í kringum Wallet lausnir fyrirtækisins. Regínu starfaði ég áður með hjá Nova og því kunnugur þeirri reynslu og fagmennsku sem við erum að fá með ráðningu hennar. Reynsla Mimozu og menntun mun ekki síður reynast okkur mikilvæg á þeirri spennandi og hröðu vegferð sem við erum á,” segir Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri Leikbreytis.
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðasta mánuði hafa mörg af stærstu verslunarfyrirtækjum landsins valið „Gift to Wallet“ lausn Leikbreytis til að halda utan um gjafakort sín en lausnin hentar bæði fyrir verslanir og verslunarmiðstöðvar. Lausnin gerir verslunum kleift að gefa út gjafakort, vildarkort og starfsmannakort bæði á hefðbundin hátt í prenti og í Apple og Google Wallet.