Tilnefningarnefnd VÍS hefur lagt til að Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar, verði ásamt fjórum sitjandi stjórnarmönnum kjörinn í stjórn vátryggingafélagsins á aðalfundi þess sem fer fram 16. mars næstkomandi. Skel er næst stærsti hluthafi VÍS með 8,97% hlut.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að fjórir af núverandi aðalmönnum í stjórn hafi gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, þ.e. þau Guðný Hansdóttir, Marta Guðrún Blöndal, Stefán Héðinn Stefánsson og Vilhjálmur Egilsson. Svo virðist því sem Valdimar Svavarsson hafi ekki gefið kost á sér til endurkjörs.

Auk fjögurra sitjandi stjórnarmanna buðu fimm einstaklingar sig fram til stjórnarsetu. Af þeim var Ásgeir tilnefndur í nefndina. Allir sem hlutu ekki tilnefningu drógu framboð sitt til baka nema Stefán Árni Auðólfsson.

„Nefndin telur Stefán Árna Auðólfsson hæfan sem stjórnarmann, en telur hann ekki með þann bakgrunn sem nefndin leitar að í fimmta stjórnarmanninum. Stefán Árni er lögfræðingur og er sú þekking nú þegar fyrir hjá Mörtu Guðrúnu Blöndal, sem hefur setið í stjórninni frá 2018,“ segir í skýrslunni.

„Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er einnig lögfræðingur en er fyrst og fremst tilnefndur í stjórnina vegna víðtækrar reynslu úr fjármálaheiminum og þeim áþreifanlega árangri sem hann hefur náð í starfi. Ásgeir Helgi leiðir starfsemi Skel fjárfestingafélags, sem er einn af stærstu hluthöfum VÍS.“

Tilnefningarnefndin leggur því til að eftirtalin verði kjörin í stjórn VÍS:

  • Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður
  • Vilhjálmur Egilsson, varaformaður
  • Guðný Hansdóttir, stjórnarmaður
  • Marta Guðrún Blöndal, stjórnarmaður
  • Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason

Í tilnefningarnefnd VÍS sitja Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Magnús Bjarnason og Jensína Kristín Böðvarsdóttir sem er formaður nefndarinnar.

Nefndin leggur einnig til að Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir og Sveinn Friðrik Sveinsson verði endurkjörin sem varamenn í stjórn.

Sitjandi stjórn VÍS, frá vinstri: Guðný Hansdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Stefán Héðinn Stefánsson, Marta Guðrún Blöndal og Valdimar Svavarsson.
Sitjandi stjórn VÍS, frá vinstri: Guðný Hansdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Stefán Héðinn Stefánsson, Marta Guðrún Blöndal og Valdimar Svavarsson.