Sævar Garðarsson, verkfræðingur og trompetleikari, hefur sett á laggirnar ráðgjafarfyrirtækið Sjöund ráðgjöf ehf., til að sinna vöruþróun og vörustjórnun.
Hann er með 20 ára reynslu af vöruþróun sem fagi, allt frá hugmynd til þróunar, stjórnunar, framleiðslu, og staðsetningar á markaði.
Sævar starfaði nú síðast hjá Controlant, en hefur líka unnið hjá Bosch, Marel og Össuri, ásamt því að hafa aðstoðað sprotafyrirtæki í gegnum stoðþjónustur fyrir frumkvöðla á borð við Startup Supernova og KLAK.
„Ég ákvað að söðla um og stofna mitt eigið sprotafyrirtæki á sviði ráðgjafar í vörustjórnun og vöruþróun í kjölfar uppsagnar hjá Controlant núna fyrr í haust. Að reka eigið ráðgjafarfyrirtæki er gamall draumur, sem ég hef gengið með í maganum í nokkur ár. Vegferðin hjá Controlant var mögnuð og uppsögn mín og 149 annarra starfsmanna voru nauðsynlegt viðbragð við krefjandi aðstæðum á alþjóðamörkuðum,“ segir Sævar.
Sjöund ráðgjöf býður fjölbreytta þjónustu í vörustjórnun og vöruþróun, sem er sérsniðin hverju verkefni. Þar má nefna vörustjórnun með vörustefnu, notendarannsóknum, staðsetningu vöru á markaði, skipulagi vörufjölskyldu og áætlun varðandi innkomu á markað.