Tryggvi Björn Davíðsson, annar stofnenda indó, hefur tekið við sem framkvæmdastjóri sparisjóðsins. Hann tekur við framkvæmdastjórastarfinu af meðstofnanda sínum, Hauki Skúlasyni, sem mun taka að sér ráðgjafastörf fyrir stjórn fyrirtækisins.

Haukur og Tryggvi eru báðir enn í hópi stærstu eigenda indó.‏ Tryggvi Björn var áður í stöðu rekstrarstjóra sparisjóðsins.

Tryggvi Björn hefur á ferli sínum starfað hjá Barclays í Lundúnum og sem framkvæmdastjóri markaða hjá Íslandsbanka. Tryggvi er með MBA gráðu frá INSEAD í Frakklandi og MS-gráðu í fjármálum frá Université Sciences Sociales í Toulouse.

Tryggvi Björn Davíðsson, annar stofnenda Indó, gegndi stöðu rekstrarstjóra áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri sparisjóðsins.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Ég hlakka til að vinna með Tryggva í nýju hlutverki. Ég vil sömuleiðis þakka Hauki Skúlasyni fyrir hans mikla framlag á þeim árum sem hann leiddi félagið. Ástríða Hauks og smitandi áhugi á umbreytingum eru ekki síst lykillinn að því að það tókst að koma með nýja samkeppni inn á íslenskan bankamarkað í fyrsta sinn í áratugi,“ segir Sigþór Sigmarsson, stjórnarformaður indó.

„Haukur og Tryggvi hafa byggt upp magnað teymi sem með lítilli yfirbyggingu hefur náð frábærum árangri. Þeim hefur tekist að höfða til framsæknustu viðskiptavinina á Íslandi, fólks sem vill betri kjör og kann að meta gegnsæi um vexti og gjöld. Þetta er formúla sem virkar og framundan er að veita bönkum enn öflugri samkeppni, íslenskum neytendum til góða.“

Indó opnaði innlánsreikninga fyrir almenning fyrir tveimur árum síðan. Félagið státar nú af tæplega áttatíu þúsund viðskiptavinum og meira en 20 milljörðum í innstæðum.

„Ég er afar stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og þeim jákvæðu breytingum sem innkoma indó á markaðinn hefur haft í för með sér. Við hófum þessa vegferð fyrir sjö árum. Nú eru tímamót í starfsemi félagsins og ég hef ákveðið að draga mig út úr daglegum rekstri. Ég mun hins vegar áfram styðja við félagið með ráðum og dáð. Sýn okkar er óbreytt. Við teljum okkur geta sparað tíu þúsund milljónir fyrir almenning á hverju einasta ári. Í fyrra spöruðu viðskiptavinir indó 922 milljónir króna í bullgjöld og af því er ég stoltur,“ segir Haukur Skúlason, meðstofnandi indó.