Íslandsbanki hefur ráðið tvo nýja forstöðumenn á sviði hugbúnaðarþróunar bankans, þær Halldóru G. Steindórsdóttur og Gyðu Einarsdóttur.
Gyða Einarsdóttir er nýr forstöðumaður samstæðulausna en hún kemur til Íslandsbanka frá VÍS þar sem hún var þróunarstjóri og teymisstjóri nýsköpunar og þróunar. Áður starfaði hún hjá Arion banka frá 2010 til 2018 þar sem hún gegndi vöruþróun og teymisstjórn í tengslum við stafræna þjónustu bankans. Frá 2001 til 2009 starfaði hún hjá Kaupþingi.
Í tilkynningu segir að Gyða búi að yfir 20 ára starfsreynslu í teymisstjórnun, verkefnstjórnun, hugbúnaðarþróun og nýsköpun. Hún er með BS gráðu í tölvunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskólanum í Reykjavík og MBA gráðu frá sama skóla. Þar að auki er hún með löggildingu sem verðbréfamiðlari.
Halldóra er nýr forstöðumaður daglegra bankaviðskipta en hún kemur frá Landsbankanum, þar sem hún hafði starfað frá árinu 2002. Hjá Landsbankanum var hún síðast hópstjóri á upplýsingatæknisviði og átti fyrir hönd bankans sæti í stjórn Reiknistofu bankanna. Þá á hún einnig sæti í stjórn Snjallgagna og er fulltrúi í allsherjarráði Evrópska greiðslumiðlunarráðsins (EPC).
Að því er segir í tilkynningu frá Íslandsbanka hefur Halldóra í störfum sínum öðlast djúpa þekkingu á greiðslumiðlun fyrirtækja. Hún er með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún hefur lokið IPMA gráðu í verkefnastjórn og hlotið vottun Akademias til stjórnarsetu.