Hulda Steingrímsdóttir umhverfisstjórnunarfræðingur hóf nýlega störf hjá PwC sem leiðtogi sjálfbærnimála. Hún hefur fjölbreytta og áratugalanga reynslu af ráðgjöf og innleiðingu verkefna hjá bæði fyrirtækjum og hinu opinbera á sviði loftslags- og umhverfismála, samfélagsábyrgðar og verkefnastjórnun.

Síðastliðin átta ár hefur hún unnið sem umhverfisstjóri Landspítala og hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir árangur sinn í umhverfis- og loftslagsmálum. Hulda hefur auk þess leitt verkefni á sviði vistvænni innkaupa, græn skref stofnanna, loftlagsstefnu stjórnarráðsins, sinnt kennslu og samstarfsverkefnum hérlendis sem erlendis.

Hulda er með M.A/M.Sc. í umhverfisstjórnun og viðskiptafræði með áherslu á samfélagsábyrgð frá Handelshögskolan, Göteborgs Universitet og B.Sc. í líffræði frá Háskóla Íslands.

Aron Friðrik Georgsson hóf þá nýlega störf hjá PwC sem sérfræðingur í sjálfbærni en hann hefur síðastliðin 4 ár starfað hjá Klöppum grænum lausnum í sjálfbærni- og þjónustumálum. Aron vann áður við upplýsingaöryggisráðgjöf hjá Stika sem sameinaðist Klöppum árið 2019.

Hann lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2017 og stundar nám í viðbótardiplóma í umhverfis- og auðlindafræði meðfram vinnu. Ljósbrá Baldursdóttir, forstjóri PwC

„Við erum mjög spennt að fá þau Huldu og Aron Friðrik til liðs við okkur og stórefla þjónustu okkar á sviði sjálfbærni sem er afar mikilvægt málefni hjá PwC, sem leiðandi ráðgjafafyrirtæki á heimsvísu. Þau búa að viðamikilli reynslu á þessu sviði og verður gaman að vinna með þeim að uppbyggingu þessa mikilvæga og vaxandi þjónustusviðs innan félagsins,” segir Ljósbrá Baldursdóttir, forstjóri PwC.