Framleiðslu- og matvælafyrirtækið Myllan-Ora ehf. hefur ráðið tvo nýja stjórnendur til starfa. Inga María Magnúsdóttir hefur tekið við sem fjármálastjóri og Íris Benediktsdóttir sem mannauðsstjóri.
Myllan-Ora ehf. hefur ráðið Ingu Maríu Magnúsdóttur sem fjármálastjóra og Írisi Benediktsdóttur sem mannauðsstjóra.
Inga María Magnúsdóttir bætist í teymi Myllunnar-Ora sem fjármálastjóri með öflugan bakgrunn í fjármálastjórnun og rekstri.
Hún kemur frá Ísfugli og tengdum félögum þar hún starfaði sem fjármálastjóri, en áður starfaði hún sem fjármálastjóri Basko verslana og forstöðumaður hagdeildar og reikningshalds.
Þá hefur Inga María unnið sem rekstrarstjóri, verkefnastjóri, deildastjóri auk þess sem hún hefur aflað sér víðtækrar reynslu af rekstri fyrirtækja á Íslandi, Danmörku og í Bandaríkjunum í New York. Inga María er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Íris Benediktsdóttir kemur til Myllunnar-Ora með víðtæka reynslu í mannauðsstjórnun. Hún starfaði áður sem mannauðsstjóri hjá Grundarheimilunum hjúkrunarheimilum, þar sem hún leiddi stefnumótun og þróun mannauðsmála.
Auk þess sat Íris í stjórn FSÍÖ, Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu. Hún lauk M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í sálfræði frá sama skóla.
„Við erum afar ánægð með að fá Ingu Maríu og Írisi til liðs við Mylluna-Ora. Þær koma með dýrmæta reynslu og þekkingu sem mun styrkja fyrirtækið enn frekar í okkar vegferð. Við hlökkum til að vinna með þeim að því að efla starfsemina og skapa enn betri framtíð fyrir viðskiptavini og starfsfólk okkar,“ segir Kristján Theodórsson, forstjóri Myllunnar-Ora.