Stefán Örn Viðarsson hefur verið ráðinn viðskiptastjóri hjá OK en hann hefur starfað í tæknigeiranum frá árinu 1996. Hann kemur til OK frá Marel þar sem hann stýrði tæknideildinni bæði á Íslandi og í Danmörku. Stefán hefur meðal annars byggt upp og rekið kerfisleiguhýsingar hjá Advania á Akureyri og TRS á Selfossi, fyrst sem tæknimaður og síðar sem tæknistjóri.

Hann er með IT Professional diplómu frá SAIT tækniháskóla í Kanada og stjórnendanámi Háskólans á Akureyri ásamt fjölda af gráðum frá Microsoft.

Guðni Kári Gylfason hefur einnig tekið við stöðu viðskiptastjóra hjá OK. Hann hefur víðtæka reynslu af tækni, framkvæmdum, sölu og þjónustu en Guðni hefur starfað í tæknigeiranum frá árinu 2007. Hann starfaði lengst af hjá Icelandair Hotels þar sem hann vann að uppbyggingu miðlægrar tæknideildar, tók við sem IT Manager og tilheyrði tæknistjórateymi Icelandair Group.

Síðustu ár hefur hann starfað sem tæknilegur rekstrarráðgjafi þar sem hann hefur brúað bilið milli tækni og reksturs.

„Það er mikill styrkur að fá Stefán og Guðna til liðs við okkur hjá OK. Með þeim kemur mikil reynsla sem mun nýtast viðskiptavinum okkar afar vel. Okkar markmið er að veita framúrskarandi og persónulega þjónustu við okkar viðskiptavini og er hagur okkar að fá reynslubolta eins og Stefán og Guðna til liðs við okkur,“ segir Halldór Áskell, framkvæmdastjóri skýja- og rekstrarþjónustu hjá OK.