Nýtt svið iðnaðar og hugverka hefur verið sett á laggirnar hjá Samtökum iðnaðarins en með skipulagsbreytingunum hefur sviðum verið fækkað úr þremur í tvö. Sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs er Sigríður Mogensen en undir sviðið heyra fyrirtæki í ýmsum iðnaðgreinum, meðal annars í framleiðslu-, matvæla-, hátækni- og hugverkaiðnaði. Þá heyrir orkusækinn iðnaður einnig undir nýja sviðið. Mannvirkjasvið er áfram starfrækt í óbreyttri mynd en undir það heyra fyrirtæki í bygginga- og mannvirkjaiðnaði. Sviðsstjóri mannvirkjasviðs er Jóhanna Klara Stefánsdóttir.
„Skipulagsbreytingarnar eru til þess fallnar að styrkja öflugt starf SI í þágu félagsmanna enn frekar. Iðnaðurinn hefur tekið breytingum á undanförnum árum og fyrirséð er að breytingarnar verði enn meiri á komandi árum. Skipulag SI verður að styðja við þróun í iðnaði og við ætlum áfram að vera framsýn og leiðandi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI í tilkynningu.
Þá hafa tveir nýir starfsmenn verið ráðnir til samtakanna sem hafa þegar hafið störf. Lilja Björk Guðmundsdóttir er nýr viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði og Ída Margrét Jósepsdóttir er aðstoðarmaður framkvæmdastjóra.
Lilja Björk er með BA og ML í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í evrópskum stjórnskipunarrétti frá Háskólanum í Granada auk þess sem hún hefur málflutningsréttindi fyrir Héraðsdómi. Hún starfaði síðast hjá Rauða krossinum sem lögfræðingur og teymisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Ída Margrét er með BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands. Hún kemur frá J.P. Morgan í London þar sem hún starfaði sem sérfræðingur í alþjóðlegu verkefnastjórnunarteymi og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra. Áður starfaði hún sem aðstoðarmaður stjórnarformanns Kaupþings banka.