„Gréta (forstjóri Heimkaupa) kynnti verkefnið fyrir mér í haust og mér fannst ótrúlega spennandi að fá að taka þátt í því," segir Bjarni Þór Logason sem hefur verið ráðinn innkaupastjóri hjá Heimkaupum. Hann segir margar flottar hugmyndir vera á teikniborðinu hjá félaginu, þar á meðal nýjar Heimkaupsbúðir.
„Við viljum lágmarka tíma kúnnans við að keyra á milli verslana og vera inn í búð að versla. Fólk vill frekar nýta tímann sinn í það að vera með börnunum sínum heldur en að fara á milli verslana. Bráðum munu nýjar Heimkaupsbúðir opna þar sem hægt verður að fá afgreiddar allar þær vörur sem ekki fást í búðinni sjálfri, þannig að fólk geti klárað öll innkaupin á sama stað.“
Bjarni hefur starfað á matvælamarkaði í 22 ár. Hann hefur m.a. starfað sem rekstrarstjóri hjá heildversluninni Rolf Johansen Co., Líflandi og hjá Ölgerðinni.
„Ég byrjaði að afgreiða á kassa í 10/11 í menntaskóla. Heimkaup á 10/11 í dag og ég er enn að hitta fólk sem ég vann með fyrir tveimur áratugum síðan. Þetta er hraður og skemmtilegur bransi og maður hefur eignast mikið af vinum í gegnum vinnuna.“
Fyrir rúmlega fjórum árum síðan fór Bjarni yfir í eigin rekstur og keypti hverfisbúðina Rangá. Hann rak hana í fjögur ár með konunni sinni, en hún tók við rekstrinum fyrir um tveimur mánuðum síðan.
„Ég var kaupmaðurinn á horninu í fjögur ár en núna er ég innkaupastjóri á netinu. Það eru miklar andstæður þarna og má segja að ég sé að fara úr gamla tímanum yfir í þann nýja. Það er mikil nánd við kúnnann hjá lítilli búð eins og Rangá, á meðan hjá Heimkaupum þarf maður að leggja mikið á sig við að ná tengslum við kúnnann.“
Nánar er rætt við Bjarna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudaginn, 1. nóvember.