Viðar Engilbertsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri hjá fjártæknifyrirtækinu Aurbjörgu. Hann segir félagið í sóknarhug. „Það er sérstaklega spennandi að koma til Aurbjargar á þessum tímapunkti. Fyrirtækið er nú í miklum vaxtarfasa og hefur meðal annars tvöfaldað starfsmannafjölda á stuttum tíma til að hraða á vöruþróun og markaðssókn. Það er mikill heiður að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem markaðsstjóri, sem er ný staða innan félagsins.“

Viðar er giftur Gyðu Björk Bergþórsdóttur og eiga þau þrjár stúlkur. Þau búa á Akranesi, þar sem Viðar hefur búið alla tíð að undanskildum þremur árum þegar hann lagði stund á nám í borginni. Hann á sér mörg áhugamál, en hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á hreyfingu.

Ég var með vöðvana og hugann í þetta en ég var ekki alveg með liðina í þetta.

„Ég fór af fullum krafti í kraftlyftingarnar árið 2015 og keppti í íþróttinni og náði þar ágætis þyngdum. Ég var með vöðvana og hugann í þetta en ég var ekki alveg með liðina í þetta. Seinna meir heltist ég úr lestinni og fór að einbeita mér að hlaupum og byrjaði almennilega að hlaupa í byrjun faraldursins.“

Viðar segir hlaup vera góða blöndu af útrás og hugleiðslu. Hann er mikill keppnismaður í hlaupunum, líkt og í lyftingunum. „Ég viðurkenni það að hlaupin voru erfið til að byrja með. Með tímanum og æfingunni hefur það breyst og í dag hleyp ég langar vegalengdir án tónlistar eða hlaðvarps í eyrunum.“

Honum þykir fátt skemmtilegra en að taka eitthvað eitt fyrir í eldamennskunni og ná góðum tökum á því. „Eldamennskan er skemmtilegasta áhugamálið til að deila með.“

Viðar þykir jafnframt lunkinn gítarleikari og lagasmiður, en hann var mikið í tónlist á yngri árum. „Ég stofnaði hljómsveitina Ferlegheit og við gáfum út plötu. Á þeim tíma átti gítarinn og tónlistin líf mitt og ég á ennþá gítarana heima, sem safna að vísu ryki eins og stendur.“

Nánar er rætt við Viðar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.