„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnin. Það er mikil gerjun í málaflokknum og kröfurnar sífellt að aukast bæði frá almenningi og löggjafanum,“ segir Þórhallur Hákonarson, nýr fjármálastjóri Sorpu.
Þórhallur starfaði undanfarin sextán ár sem sviðsstjóri fjármálasviðs hjá Lyfjastofnun. Hann segir mikinn mun á störfunum tveimur. „Hjá Lyfjastofnun er launakostnaður um 80% af rekstrarkostnaði, en hjá Sorpu er hlutfallið um 35%. Velta Lyfjastofnunar er 1,4 milljarðar en hjá Sorpu er hún 6,7 milljarðar. Þetta er því mun umfangsmeiri rekstur hjá Sorpu, meiri velta og mun fleiri starfsmenn.“
Hann segir mikil viðbrigði að færa sig um set eftir sextán ára starf. „Mér leið mjög vel hjá Lyfjastofnun og þar starfar frábært fólk. En eftir sextán ár taldi ég að tími væri kominn til að breyta til, þróast, þroskast og takast á við nýjar áskoranir.“
Þórhallur segist mikill áhugamaður um íþróttir og hreyfingu. Á seinni árum hafi hann þróað með sér afar spennandi áhugamál. „Nú þegar aldurinn er farinn að segja til sín og seinni hálfleikur er að byrja þá er fallhlífarstökk aðalsportið sem ég stunda þessa dagana. Það er fátt sem jafnast á við spennuna að vera í 15 þúsund feta hæð, standa í hurðinni og horfa niður til jarðar rétt áður en maður stekkur,“ segir Þórhallur og hlær.
Nánar er rætt við Þórhall í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.