Vala Steinsdóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri græna efnasprotafyrirtækisins Gefnar. Vala hefur frá árinu 2017 verið framkvæmdastjóri Sóley Organics. Áður var hún m.a. yfirmaður vefviðskipta hjá 66° Norður, verkefna- og alþjóðlegur vörustjóri hjá Nike EHQ í Hollandi og hönnuður hjá d30 Lab í London.

Fyrstu verkefni Völu snúa að því að styrkja stöðu og rekstur Gefnar, sem er að ljúka sinni fyrstu fjármögnun. Gefn mun á næstunni setja í sölu græn hreinsiefni „sem hönnuð eru út frá tækni og hugmyndafræði fyrirtækisins“.

Gefn þróar tækni sem umbreytir úrgangi og útblæstri í græna efnavöru. Við framleiðslu hreinsiefnanna eru notuð innlend hráefni unnin úr úrgangi. Kolefnisspor hráefnanna sé í lágmarki og geta þau komið í stað efna sem alla jafna eru unnin úr jarðefnaeldsneyti, eins og t.d. terpentínu og önnur rokgjörn lífræn leysiefni.

Hjá fyrirtækinu starfar í dag teymi efnaverkfræðinga, efnafræðinga og annarra sérfræðinga en starfsmenn eru sex talsins.

Vala Steinsdóttir:

„Verkefni Gefnar eru ekki bara spennandi heldur eru þau líka mikilvæg þegar kemur að því að glíma við eitt stærsta verkefnið sem mannkynið stendur frammi fyrir, sem er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vernda lífríkið. Með því að nota efni aftur, í hringrás, er hægt að minnka útblástur og minnka ásókn í auðlindir. Hringrásarhagkerfi er framtíðin og Gefn mun vonandi gegna stóru hlutverki í að koma því á.“

Ásgeir Ívarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Gefnar:

„Það er mikill fengur fyrir Gefn að Vala hafi ákveðið að ganga til liðs við félagið og mun þekking og reynsla hennar styrkja okkur í þeirri vegferð sem við erum á. Hjá Gefn starfar í dag öflugur tækni- og vísindamenntaður hópur. Þekking Völu á rekstri, en einnig sölu- og markaðsmálum, á eftir að reynast okkur drjúg á komandi misserum þegar umsvifin aukast enn frekar. Fyrir liggur að taka næstu skref í undirbúningi fyrir byggingu verksmiðju, þróun tækninnar til útflutnings og markaðssetningar og sölu á efnavörum sem hannaðar eru af sérfræðingum okkar.“