Vala Einarsdóttir hefur verið ráðin í stöðu forstöðumanns sölu- og markaðsmála hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Overcast og mun stýra öllu sölu- og markaðsstarfi fyrirtækisins hér heima sem og leiða tilvonandi útrás á erlenda markaði.

Hún kemur til Overcast frá BlueCat, kanadísku hugbúnaðarfyrirtæki sem hannar lausnir fyrir flókna netinnviði. Vala tók meistaranám í viðskiptum og markaðsfræði við háskólann í New South Wales og er auk þess með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

„Eftir fjögur frábær ár hjá Men&Mice og BlueCat geng ég stolt frá borði og ótrúlega spennt fyrir komandi verkefnum hjá Overcast. Það er í óteljandi horn að líta þegar verið er að byggja sterka sölu- og markaðsdeild og undirbúa útrás á erlenda markaði. Ég er aftur í stöðu þar sem ég fæ að leggja mitt að mörkum í útflutningi á íslensku hugviti,“ segir Vala.

Overcast einblínir á tvær hugbúnaðarlausnir, Áskel fjártæknihugbúnað og Airserve auglýsingatæknihugbúnað.

„Við erum mjög ánægð að fá Völu í Overcast-teymið. Með yfirgripsmikla reynslu á sviði sölu- og markaðsmála mun hún gegna lykilhlutverki í áframhaldandi stækkun Áskels og þróun Airserve. Þekking hennar og leiðtogahæfileikar eru dýrmæt viðbót fyrir okkar teymi og við hlökkum til að sjá áhrif hennar á framtíðarvöxt fyrirtækisins,” segir Kjartan Sverrisson, framkvæmdastjóri Overcast.