Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði, tók um áramótin við starfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar af Rósu Guðbjartsdóttur sem gegnt hefur embætti bæjarstjóra síðan í júní 2018.
Bæjarstjóraskiptin eru í samræmi við samkomulag Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2022 um að oddviti Sjálfstæðisflokks myndi sitja í stóli bæjarstjóra til 1. janúar 2025 þegar oddviti Framsóknarflokks myndi taka við.
Valdimar hefur verið formaður bæjarráðs á kjörtímabilinu og tekur Rósa nú við þeirri formennsku auk þess sem hún var á dögunum kjörin til Alþingis.
„Sem formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi þekki ég þegar vel til helstu mála sem eru efst á baugi hjá sveitarfélaginu. Það er þó margt á borði bæjarstjóra sem ég mun þurfa að setja mig nánar inn í, enda Hafnarfjarðarbær stórt sveitarfélag sem býður upp á víðtæka og fjölbreytta þjónustu við íbúa og atvinnulíf. Metnaður minn er að halda áfram á þeirri braut uppbyggingar og framfara sem mörkuð hefur verið undanfarin ár,“ segir Valdimar.
Valdimar sat sem varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði kjörtímabilið 2018 til 2022 og var formaður fjölskylduráðs á tímabilinu. Valdimar var kjörinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí 2022 og hefur síðan þá verið formaður bæjarráðs. Þá hefur Valdimar verið skólastjóri Öldutúnsskóla í sextán ár eða frá árinu 2008.
Valdimar Víðisson er fæddur 10. september 1978. Hann er giftur Sigurborgu Geirdal og á einn son, tvær stjúpdætur og tvö barnabörn.