Valur Ásberg Valsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kælitækni frá og með 1. nóvember næstkomandi.

Kælitækni er yfir 60 ára gamalt fyrirtæki sem þjónustar kæliiðnaðinn á Íslandi í stóru og smáu.

Valur starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar frá árinu 2008, en alls vann hann hjá Ölgerðinni í 20 ár, síðast sem framkvæmdastjóri Egils áfengrar drykkjavöru og fyrirtækjaþjónustu.

„Ég er fullur tilhlökkunar á samstarf við starfsfólk og stjórn Kælitækni á komandi árum. Saga fyrirtækisins og framtíðarsýn er áhugaverð og sé ég mikil tækifæri til vaxtar á komandi árum,“ segir Valur Ásberg.

Valur útskrifaðist með B.Sc. í iðnaðartæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2003. Valur hefur víðtæka reynslu í rekstri og sölu- og markaðsmálum.

„Við væntum mikils af samstarfi við Val á komandi árum. Reynsla hans og þekking í íslensku viðskiptalífi er víðtæk og við teljum að innkoma hans sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins muni styðja við vöxt starfseminnar og leiða félagið inn í framtíðina,“ segja Haukur Njálsson og Erlendur Hjaltason fyrir hönd stjórnar Kælitækni.