Óttar Örn Sigurbergsson hóf störf sem sölumaður á gólfinu hjá ELKO fyrir 17 árum síðan, en sá þá ekki fyrir sér að staldra lengi við.

„Prófskírteinið var enn heitt þegar ég byrjaði hjá ELKO þar sem ég ætlaði rétt að brúa bilið þangað til ég fengi vinnu í takt við menntun, en draumurinn var að fara í bankageirann og verða þar einhver stór karl - þó ég sjálfur væri ekki hár í loftinu. En sem betur fer gekk það ekki eftir og ég hef fengið að spreyta mig í mörgum ólíkum hlutverkum í gegnum árin," segir Óttar.

Fyrirtækið hefur vaxið og þroskast frá því að hann hóf þar fyrst störf, ekki síður en hann sjálfur. „Það má í raun segja að ég hafi alist upp að einhverju leyti hér í ELKO. Að því leytinu til er ELKO hjartað mitt gríðarlega stórt og mér er mjög annt um fyrirtækið og allt fólkið sem ég hef kynnst á öllum þessum árum sem ég hef verið hérna."

ELKO hóf nýlega við að innleiða nýja þjónustumiðaða stefnu þar sem loforð fyrirtækisins er „það sem skiptir þig máli, skiptir okkur máli".

„Við höfum það að leiðarljósi við ákvarðanatöku hvort heldur sem er gagnvart viðskiptavinum eða starfsfólki, enda skilar ánægt starfsfólk ánægðum viðskiptavinum. Við ætlum okkur að halda áfram að auka þjónustustig í verslunum, á stafrænum miðlum og í eftirkaupaþjónustu og munum í því samhengi leggja mikla áherslu á stafrænar lausnir. Við erum með gríðarlega öflugt teymi á öllum vígstöðvum og erum að hlaupa mjög hratt til þess að vera fremst í flokki á komandi árum," segir Óttar.

Nánar er rætt við Óttar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .