„Ég er mjög spenntur að koma aftur til Florealis. Ég tók þátt í að koma fyrirtækinu í gang árið 2014 með Kolbrúnu Hrafnkelsdóttur, fráfarandi forstjóra félagsins, og vörurnar hafa fengið frábærar viðtökur á Íslandi,“ segir Karl Guðmundsson nýr forstjóri íslenska lyfjafyrirtækisins Florealis.

Fyrirtækið sérhæfir sig í skráðum jurtalyfjum og lækningavörum sem byggja á virkum náttúruefnum, en Karl bendir á að lyf og vörur fyrirtækisins byggi á vísindum og rannsóknum. Vörur fyrirtækisins eru nú fáanlegar í um 580 apótekum á Íslandi og í Svíþjóð og hefur fjöldi útsölustaða sjöfaldast á nokkrum mánuðum.

Karl hefur á undanförnum þremur árum verið forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu. „Starfið fólst til að byrja með í því að móta útflutningsstefnu Íslands. Störfin eru lík að því leyti að þetta snýst um að markaðssetja Ísland og vörur frá Íslandi.“

Karl á fjögur börn með eiginkonu sinni Emilíu Borgþórsdóttir hönnuði. Þau búa í Hafnarfirði, heimabæ Karls, en þar áður bjuggu þau í Vestmannaeyjum þar sem Emilía er alin upp. Þar áður bjó fjölskyldan í Bandaríkjunum í sjö ár. „Við áttum frábær tvö ár í Eyjum, en ég var þá að flakka á milli Eyja og Bandaríkjanna. Þannig að var ég kominn í fjarvinnupakkann á undan flestum öðrum, áður en faraldurinn skall á."

Karl segist vera harður Haukamaður og fylgir börnum sínum á ýmis fótbolta- og handboltamót. Hann stundar ýmiss konar útivist og má þar nefna náttúruhlaup og gönguskíði. Karli finnst jafnframt gaman að skrifa. „Aðaláhugamálið mitt þessa dagana er að skrifa sögu afa míns og fjölskyldunnar, en ég byrjaði á sögunni fyrir nokkrum árum síðan. Afi minn var bóndi í Ölfusi og ég hef verið að ná utan um sögu fjölskyldunnar 100 til 150 ár aftur í tímann.“

Nánar er rætt við Karl í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .