Klara Símonardóttir kemur til Rannsóknarseturs verslunarinnar frá heildversluninni Petmark en þar hefur hún starfað síðustu ár sem framkvæmdastjóri og unnið þar að hraðri uppbyggingu fyrirtækisins ásamt því að stýra sölu- og markaðsmálum.

Hún vann áður hjá Hundaræktarfélagi Íslands en Klara er mjög mikil hundamanneskja. Hún er með tvo hunda heima hjá sér en segir það vera óvenjulega lága tölu miðað við þá sex til sjö hunda sem hafa stundum verið á heimili hennar.

Áhugi hennar á rannsóknum og markaðssetningu kviknaði þegar Klara byrjaði að vinna hjá Gallup sem almennur spyrill. Hún var fljót að vinna sig upp innan fyrirtækisins og fór síðan að læra viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti við Háskólann við Bifröst.

Klara rannsakaði meðal annars áhrif Covid á netverslun á Íslandi og líka hvernig TikTok hefur áhrif á kauphegðun Íslendinga. Hún segir að ungir sem aldnir séu duglegir að nota snjallforritið og eru margir einnig farnir að nota TikTok sem leitarvél frekar en Google.

Nánar er fjallað um Klöru í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.