Védís Hervör Árnadóttir hefur verið ráðin stjórnandi nýrrar skrifstofu umbóta og þróunar hjá Kópavogsbæ. Védís hefur starfað sem forstöðumaður miðlunarsviðs í stjórnendateymi Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2020.

Védís leiddi innri og ytri markaðsmál SA á miklum umbótatímum sem fólu meðal annars í sér stafvæðingu ferla og endurmörkun. Þar áður starfaði Védís í stjórnendateymi Viðskiptaráðs Íslands.

Auk áratuga stjórnendareynslu í íslensku atvinnulífi hefur hún fjölbreytta reynslu úr nýsköpunargeiranum en hún leiddi meðal annars brautryðjendastarf í íslenskri mál- og menntatækni.

„Það er mikill heiður að fá að leiða nýja skrifstofu umbóta og þróunar með öflugu teymi. Hún verður vettvangur framsækinna lausna með áherslu á stafræna umbreytingu, gagnadrifna markaðssetningu og iðandi menningarlíf. Með einföldun ferla og nýtingu samlegðaráhrifa má auka skilvirkni og þjónustu og þannig standa vörð um sterka stöðu Kópavogs með umbótum sem skila sér í auknum lífsgæðum íbúa,“ segir Védís.

„Það er mikill fengur að fá svo öflugan stjórnanda með ferska sýn, en það er einmitt það sem ný skrifstofa þarfnast,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Védís er með Executive MBA meistaragráðu í stjórnun, stefnumótun og rekstri frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í mannfræði með áherslu á atferlishagfræði frá Háskóla Íslands.

Sindri verður áhættu- og fjárstýringarstjóri

Sindri Sveinsson hefur þá verið ráðinn áhættu- og fjárstýringarstjóri hjá Kópavogsbæ en hann hefur starfað hjá Kópavogsbæ frá árinu 2009.

Hann hefur frá 1.mars síðastliðnum gegnt starfi deildarstjóra greiningardeildar á skrifstofu áhættu- og fjárstýringar en var áður rekstrarstjóri menntasviðs Kópavogsbæjar.

„Það er mér mikill heiður að taka við nýju starfi áhættu- og fjárstýringarstjóra Kópavogsbæjar. Traustur rekstur og ábyrg fjármálastjórnun eru gríðarlega mikilvægar áherslur í stóru sveitarfélagi. Ég hlakka því til að takast á við spennandi verkefni og þær áskoranir sem bíða í samstarfi við öflugan hóp starfsmanna á skrifstofu áhættu- og fjárstýringar,“ segir Sindri.

Í starfi sínu sem rekstrarstjóri hefur Sindri meðal annars annast gerð fjárhagsáætlunar, sinnt rekstrareftirliti, frávikagreiningu sem og ýmiss konar gagnagreiningu, ráðgjöf og upplýsingamiðlun.

„Sindri hefur mikla þekkingu á rekstri sveitarfélagsins. Sú reynsla, ofan á farsælan bakgrunn í áhættu- og fjárstýringu og ekki síst upplýsingamiðlun þeirra gagna, mun reynast dýrmætt veganesti fyrir þá vegferð sem Kópavogsbær er á,” segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.