„Gagnaver eru lykilinnviðir allrar nútíma upplýsingatækniþjónustu, sama hvort við séum að spila leik á netinu, nota upplýsingar sem við höfum vistað í skýi, eða að nýta okkur gervigreind. Við þessar hversdagslegu athafnir blikka ljós og tannhjól snúast í gagnaverum nær og fjær og þar er þjónusta atNorth í fararbroddi,“ segir Anna Kristín Pálsdóttir sem hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra þróunar og nýsköpunar hjá atNorth.

Viðfangsefni dagsins hjá Önnu Kristínu snúa því að hönnun og staðsetningu nýrra gagnavera, en því fylgir orkusparnaður að staðsetja gagnaverin á norðlægum slóðum og þá leggur félagið áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og sjálfbærni í rekstrinum.

„Þar undir falla líka hlutir eins og að finna not fyrir varmann sem til verður í gagnaverunum, en í Stokkhólmi höfum við einmitt notað hann til húshitunar í nærumhverfinu. Þegar gagnaverið þar verður komið í fulla vinnslu getum við hitað tugi þúsunda íbúða í Stokkhólmi.“ Í þessum efnum segir hún ónýtt tækifæri á Íslandi. „Og við erum til tals um að nýta þau tækifæri.“

Viðtalið við Önnu birtist í heild sinni í Viðskiptablaði vikunnar.