Grace Achieng var kosin í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu með meirihluta atkvæða á aðalfundi FKA í síðasta mánuði. Grace segist mjög þakklát að félagskonur hennar hafi tekið eftir vinnu hennar og séð þörfina fyrir aukna fjölbreytni.

„Ég fékk þessa kosningu vegna þess að ég þorði að rétti upp hönd, eitthvað sem konur af erlendum uppruna þora ekki alltaf að gera, sérstaklega þær sem ekki eru hvítar.“

Grace segist vilja nota stjórnarsæti hennar til að standa í forsvari fyrir þá sem eru minni máttar og eru ósýnileg í samfélaginu. Hún segist tengja við konurnar sem hafa alltaf setið aftast, hikandi við að stíga fram og tala af ótta við að segja eitthvað vitlaust.

„Ég vil sýna að allir geta stigið fram og látið í sér heyra. Ég vil sýna stúlkum og konum að þú getur rétt upp hönd og látið í þér heyra óháð þjóðerni, kynþætti, samfélagsstöðu eða hvaða skilgreiningu sem er. Bara þorðu að stíga fram og taka pláss.“

Grace er fædd og uppalin í borginni Kisumu í Keníu. Hún hefur búið á Íslandi í 13 ár en flutti hingað þegar hún var 25 ára gömul. Á þeim tíma hafði hún áhuga á að starfa við tísku en erfiðlega gekk að fá vinnu í þeim geira. Hún vann fyrstu árin sín í fiskvinnslu og meðal annars á leikskóla en er nú komin með sitt eigið vörumerki, Gracelandic.

„Ég er fyrsta svarta konan og önnur af erlendum uppruna til að vera í stjórn FKA en ég mun ekki verða sú síðasta."

Hún segist vilja tala fyrir hönd kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaðnum og sérstaklega þeirra sem eru ekki hvítar á hörund. „Konur af erlendum uppruna eru minnihlutahópur sem þurfa á fleiri málsvörum að halda. En innan þess hóps lendir fólk líka í ákveðinni goggunarröð eftir húðlit. Því dekkri sem húðin er því neðar ertu í fæðukeðjunni.“

Að sögn Grace er vinnumarkaðurinn að missa af miklu hæfileikaríku fólki og er fólk með sköpunargáfu of oft vannýtt. Þrátt fyrir að vera með menntun og standast hæfnikröfur þurfa margar erlendar konur að sætta sig við láglaunastörf sem hafa litla möguleika til framþróunar. Tungumálið er oft notuð sem ástæða en Grace segir að það virðist ekki vera vandamál þegar hvítt fólk er síðan ráðið í fínni störf.

„Ég er fyrsta svarta konan og önnur af erlendum uppruna til að vera í stjórn FKA en ég mun ekki verða sú síðasta. Við getum öll orðið fyrirmyndir ef við fáum sömu tækifærin og ég vil sjá fleiri fyrirmyndir sem líkjast mér. Það skiptir nefnilega svo miklu máli að eiga sér fyrirmyndir sem maður tengir við – að sjá ljóslifandi birtingarmyndir drauma sinna,“ segir Grace.