Vigdís Guðjohnsen hefur tekið við stöðu markaðsstjóra Nettó. Hún hefur víðtæka þekkingu og yfir tíu ára reynslu af markaðsmálum, með sérstakri áherslu á stjórnunarhlutverk og markaðsstefnu.
Þá tekur Vigdís við af Helgu Dís Jakobsdóttur, sem hefur sinnt stöðu markaðsstjóra Nettó og mun taka við stöðu vöruflokkastjóra á innkaupa- og vörustýringarsviði Samkaupa að loknu fæðingarorlofi.
„Við erum virkilega ánægð að fá Vigdísi til starfa enda býr hún yfir gífurlega öflugri starfsreynslu og er mikill sérfræðingur á sínu sviði. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Nettó og Samkaupum og ég er fullviss um að Vigdís mun hafa í nægu að snúast á næstu misserum,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri versunar- og mannauðssviðs.
Vigdís kemur til Samkaupa frá flugfélaginu Play þar sem hún starfaði sem markaðsstjóri og bar ábyrgð á markaðs- og ímyndarmálum félagsins, uppbyggingu vörumerkisins í gríðarlega hröðum vexti og þróun og framkvæmd umfangsmikillar markaðsáætlunar á alþjóðavettvangi. Þar áður starfaði hún sem markaðsstjóri Skeljungs.
„Dagvörumarkaðurinn er spennandi geiri þar sem hlutir gerast hratt og það er alltaf nóg að gera, og í þannig umhverfi þrífst ég best. Á sama tíma er spennandi að fá þetta tækifæri að fá taka þátt í að móta markaðsmál Nettó sem er frábær verslun á verðmætri vegferð að verða samkeppnishæfari á markaði, og ég hlakka því til að ganga til liðs við öflugt fyrirtæki eins og Samkaup,“ segir Vigdís.