Ríflega 60 stjórnendur hjá Reykjavíkurborg fengu samanlagt 301 milljón króna aukalega í laun árið 2024 vegna breytinga á gildistíma viðbótarlaunakerfis. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.
Í júní 2024 afturkallaði kjarnefnd Reykjavíkurborgar ákvörðun fyrrverandi kjaranefndar um viðbótarlaunakerfi frá árinu 2020 og tók nýja ákvörðun. Endurákvörðunin fól í sér að gildistími viðbótareiningakerfisins væri frá 1. júní 2016 en ekki 1. júní 2019.
Undir viðbótarlaunakerfið falla æðstu stjórnendur borgarinnar. Í dag teljast til æðstu stjórnenda borgarritari, sviðsstjórar fag- og kjarnasviða, borgarlögmaður og skrifstofustjóri borgarstjórnar sem heyra beint undir borgarstjóra, ásamt innri endurskoðanda og mannréttindastjóra. Þá er að auki hópur stjórnenda sem fellur undir ákvarðanir nefndarinnar.
Í ársreikningi Reykjavíkurborgar má finna sundurliðun um laun æðstu stjórnenda borgarinnar en rétt er þó að taka fram að þar er einnig að finna laun kjörinna fulltrúa, þ.á m. borgarstjóra og borgarfulltrúa, sem viðbótareiningakerfið tekur ekki til. Greint er þó sérstaklega frá launum borgarritara og borgarlögmanns.
Samkvæmt ársreikningi borgarinnar námu árslaun núverandi borgarritara 26,5 milljónum króna árið 2024 en fyrrverandi borgarritari 4,9 milljónir í laun. Þá var borgarlögmaður með 28,5 milljónir en ætla má að hluti þess sé vegna endurákvörðunarinnar.
Laun þeirra hækkuðu talsvert milli ársins 2019 og 2020 og má ætla að upphaflega viðbótarlaunakerfið hafi þar spilað hlutverk. Heildarlaun borgarritara hækkuðu til að mynda um 20% og laun borgarlögmanns um 16% en lækkuðu síðan milli 2020 og 2021. Sambærileg hækkun virðist hafa átt sér stað í fyrra en milli 2023 og 2024 hækkuðu laun borgarlögmanns um 21% og heildarlaunagreiðslur til borgarritara, ef miðað er við greiðslur til núverandi og fyrrverandi, hækkuðu um 26%.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.