Vöxtur reiðhjólafyrirtækisins Lauf Cycles hefur verið ævintýralegur undanfarin ár. Einblínt hefur verið á Bandaríkjamarkað en fyrirtækið hóf að selja vörur beint til viðskiptavina þar árið 2020. Stefnan er sett á að ná 100 milljóna dala veltu þar á næstu árum.
Til lengri tíma er stefnan sett á að vera með um helming af veltu Canyon, sem er í raun eina stóra fyrirtækið sem selji beint til kúnna í Bandaríkjunum, en Canyon veltir í dag hátt í einum milljarði dala.
„Við sjáum borðleggjandi tækifæri í því að einbeita okkur betur að hærri endanum í vörulínu okkar. Með því að reyna að gera öll möguleg hjól fyrir alla mögulega kúnna, þá þynnist vörumerkið. Auðveldar leiðir til þess að vaxa kunna á hverjum tímapunkti að vera freistandi. En sem eigandi að Lauf-keppnishjóli þá viltu ekki lenda í því að ganga fram á ryðgað Lauf borgarhjól með bögglabera niðri í hjólageymslu,“ segir Benedikt Skúlason, forstjóri Lauf.
Hvað aðra markaði varðar segir Benedikt að það liggi beinast við að fara inn á Bretlandsmarkað, enda sama tungumál og svipuð menning. Með breiðari vörulínu verði auðveldara að keyra inn á nýja markaði, ekki síst í Evrópu.
„Hvorutveggja er augljóst tækifæri en það er alltaf þetta, að vinna einn bardaga frekar en að tapa mörgum. Þannig að meðan við höfum bara takmarkað bolmagn þá viljum við keyra á Bandaríkin. En svo er það ekki spurning, sérstaklega eftir að við erum búin að víkka vörulínuna, komin með fjallahjól og rafmagnsfjallahjól síðar meir, að þá verður miklu auðveldara að opna í Evrópu,“ segir Benedikt.
„Síðan er Kínamarkaður líka ótrúlega spennandi, hann er það örugglega í flestum brönsum en í hjólabransanum eru alveg absúrd hlutir að gerast, það er einhvern veginn allt í einu að kvikna á honum.“
Eins og staðan er í dag sé markaðsstærð koltrefjahjóla í vestrænum heimi í kringum tvær milljónir hjóla á ári og sé að vaxa í kringum 6-7% á ári. Stærsti koltrefjabirgir heims, sem er sömuleiðiskoltrefjabirgir Lauf, áætlar að innan tveggja ára verði Kínamarkaður einn og sér með um milljón koltrefjahjól að auki.
„Það eru hellings tækifæri þar og það liggur svolítið beint við, því við höfum verið með samstarfsaðila í framleiðslu í Kína og til í Kína í gegnum það frá síðastliðnum áratug. Það væri hægt að spinna út frá því að setja upp einhverja dreifimiðstöð þar. En við sjáum hvað setur.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.