Fyrirtækið Lauf Forks ehf. var stofnað árið 2011 í kringum framleiðslu á nýjum léttari fjöðrunargaffli fyrir reiðhjól. Fyrsti gaffallinn dagsins ljós árið 2014 og er fjöðrunartækni félagsins einkaleyfisvarin. Fyrsta Lauf hjólið kom svo á markað árið 2017 og var nafni félagsins breytt í Lauf Cycles. Í dag framleiðir félagið götuhjólið Úthald, malarhjólið Seiglu og nú síðast fjallahjólið Elju.

Árið 2017 nam velta félagsins ríflega 100 milljónum króna og var komin upp í hátt í hálfan milljarð þegar ákveðið var að selja vörur beint til viðskiptavinarins árið 2020. Einungis ári seinna tvöfaldaðist veltan og í dag er hún yfir 1,5 milljörðum króna.

Hvað framtíðina varðar segir Benedikt Skúlason, forstjóri Lauf, að erfitt sé að spá hvað hún beri í skauti sér, allt sé tekið skref fyrir skref. Lauf hafi til að mynda byrjað á einum gaffli og þróast svo út í að vera annað og stærra fyrirbæri. Hjólabransinn eigi eftir að þróast hratt og því skipti máli að halda sér á tánum.

„Við gætum núna alveg vaxið organískt um einhver 20% á ári en þá er hættan sú að eitthvert merki sem við vitum ekki einu sinni að sé til í dag, keyri inn eitthvert fjármagn og taki „direct-to-consumer“ kanalinn og setji enn stærri samsetningarverksmiðju upp í næsta bæ við okkur. Auðvitað þyrfti viðkomandi fyrirtæki að byggja upp alveg fullt af hlutum sem við höfum nú þegar. Tækni, einkaleyfi, vöruhönnun, innviði, vörumerki, kúnnabasa, og svo framvegis. Það myndi kosta það fyrirtæki mikla fjárfestingu að nálgast okkur. Mælt í bæði peningum. En til lengri tíma er þetta samt svolítið spurning um að vaxa eða deyja. Það má ekki sofa á verðinum, sem keyrir okkur áfram að þessu markmiði að vaxa í einhverja hundruð milljóna dollara stærð,“ segir Benedikt en um leið og eitt verkefni sé búið þá taki alltaf annað við.

„Meðan ég er hérna, ef ég á að nenna að vera í þessu starfi, þá verður að vera vöxtur og sköpun. Ég líki því við að mér finnst alltaf skemmtilegra að vera í mótauppslætti heldur en að skúra gólfin, maður vill vera að byggja nýtt og stækka. Svo á einhverjum tímapunkti breytast forsendurnar og það verður arðbærara að fara að ryksuga og skúra gólfin, að auka hagræði í smáatriðum. En við erum ekki komin þangað nærri því strax.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.