Útlit er fyrir að afar krefjandi verði fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að ná frumvarpi sínu um að heimila starfsemi innlendra vefverslana með áfengi í gegnum þingið miðað við niðurstöðu könnunar Viðskiptablaðsins meðal þingmanna.
Viðskiptablaðið hefur á undanförnum fjórum vikum kannað afstöðu til netsölu áfengis þar sem eftirfarandi fyrirspurn var send á alla þingmenn: „Ert þú sem þingmaður almennt hlynntur eða andvígur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu?“
Árétta skal að fyrirspurnin var fyrst send fyrir tæpum mánuði síðan, áður en Guðrún birti drög að frumvarpinu og varast ber því að túlka svörin sem beina afstöðu til frumvarpsins.
Helsta fyrirstaðan fyrir því að málið komist í gegnum þingið er hörð andstaða Framsóknar og Vinstri grænna, samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Allir átta þingmenn VG og meirihluti þingmanna Framsóknar, þar á meðal allir ráðherrar flokksins, eru andvígir því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu.
„Ef allir þingmenn Framsóknar og allir þingmenn Vinstri grænna eru á móti þá verður erfitt að koma þessu máli í gegnum ríkisstjórn, ég held að það liggi í hlutarins eðli,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra innt eftir viðbrögðum um niðurstöðu könnunarinnar.
„En ég legg samt sem áður áherslu á það að við verðum að koma upp skýrum ramma. Þessi fyrirtæki starfa hér í íslensku samfélagi og það er vont að þau hafi ekki skýrar leiðbeiningar frá ríkinu og að fyrirkomulagið sé ekki í fastari skorðum en nú er, af því þetta er viðkvæm vara, við vitum það öll.“
Markmiðið með frumvarpinu sé ekki síður að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra aðila.
„Þarna höfum við ekki fylgt þróuninni í samfélaginu eftir, þá er ég að tala um löggjafann. Það hafa orðið breytingar, tæknibreytingar, og við störfum núna á sameiginlegu evrópsku efnahagssvæði, og hér verður að jafna samkeppnina á milli aðila.“
Eins og staðan sé í dag hafi markaðurinn tekið yfir verkefnið og því verði að bregðast við.„Þessi starfsemi er í gangi núna á Íslandi og líklega mun hún halda áfram, en í þessari lagalegu óvissu ef við gerum ekki neitt hvað varðar íslenska aðila.“
Fjallað er ítarlega um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina og svör einstakra þingmanna hér.