Bjarni Benediktsson greindi frá því á dögunum að hann hefði skipað nefnd sem ætti að skila tillögum um hvernig mætti efla Hagstofu Íslands sem miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu. Þá var nefndinni falið að skila tillögum um hvernig mætti best mæta auknum upplýsingaþörfum samfélagsins og nýta gervigreind við öflun, úrvinnslu og birtingu opinberra tölfræðiupplýsinga.

Skipun nefndarinnar kom í kjölfar leiðréttingar Hagstofunnar þar sem tölur um fjölda starfandi í ríkisstofnunum reyndust verulega ofmetnar. Hagstofan hefur reglulega birt leiðréttingar á ýmsum hagtölum í gegnum tíðina, sumar umfangsmeiri en aðrar.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forstöðumaður efnahagssviðs, segir samtökin fagna áherslum yfirvalda á eflingu Hagstofunnar og að þau beri miklar væntingar til vinnu nefndarinnar.

Hagstofan beri ábyrgð á birtingu fjölmargra tegunda nauðsynlegra gagna sem allir efnahagsgreinendur styðjast við og afdrifaríkar ákvarðanir teknar út frá slíkum greiningum. Til að mynda megi nefna að áætlanir um opinber fjármál byggi á gögnum Hagstofunnar.

„Það má segja að í hagkerfi sem er að stórum hluta miðstýrt eins og okkar sé sérlega mikilvægt að gögnin endurspegli sem best þann raunveruleika sem við búum í svo réttar ákvarðanir séu teknar. Gögn Hagstofunnar koma einnig mikið við sögu í allri opinberri umræðu um efnahagsmál og sú umræða þarf vitaskuld að vera byggð á traustum grunni ef hún á að vera gagnleg,“ segir hún.

„Að sjálfsögðu geta mannleg mistök alltaf átt sér stað og það má hrósa Hagstofunni fyrir mikinn vilja til að leiðrétta mistök á gagnsæjan hátt þegar þau uppgötvast. Þó það sé aldrei hægt að girða algerlega fyrir slík óhöpp er eflaust hægt að skerpa á forgangsröðun og straumlínulaga ferla betur innan stofnunarinnar til að lágmarka líkur á að slíkt eigi sér stað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.