Af þeim 178 frumvörpum sem boðuð voru í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hafa 16 verið samþykkt og bíða 23 til viðbótar afgreiðslu innan þingsins. Fjölmörg umdeild mál eru á eftir áætlun og eru enn fleiri á dagskrá eftir áramót.

Tvö slík eru til að mynda á áætlun í janúar. Annars vegar er um að ræða frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um störf ríkissáttasemjara. Kallað var eftir auknum valdheimildum ríkissáttasemjara í kjölfar misheppnaðrar miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins síðasta vetur. Óljóst er hvað muni felast í endanlegu frumvarpi þar sem það hefur ekki verið kynnt í samráðsgátt.

Þá hefur fyrirhugað frumvarp matvælaráðherra um ný heildarlög um sjávarútveg verið harðlega gagnrýnt, meðal annars þar sem það kveður á um aukna gjaldtöku. Hagsmunaaðilar hafa mótmælt áformunum og svo virðist sem ekki sé algjör samstaða um málið í ríkisstjórn.

Dómsmálaráðherra hefur þá boðað frumvarp um lokuð búsetuúrræði í febrúar þar sem til stendur að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins um brottvísanir. Ætla má að umræða um málið verði eldfim en líkt og með sjávarútvegsmálin virðist ekki full samstaða innan ríkisstjórnarinnar um málið.

Að lokum má nefna frumvarp dómsmálaráðherra til áfengislaga þar sem til stendur að endurskoða lagaumhverfi vefverslunar með áfengi, auk þess sem lagt er til að ekki verði lengur refsivert að framleiða áfengi til einkaneyslu. Málið hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu, ekki síst eftir að ýmsar verslanir nýttu sér glufu í lögunum til að selja áfengi á netinu. Málið er á áætlun í mars.

Viðbúið er síðan að ein þingsályktunartillaga verði sérstaklega mikið til umræðu en í mars er áætlað að umhverfisráðherra leggi fram tillögu um fjórða áfanga rammaáætlunar. Þriðji áfangi var í biðstöðu í níu ár áður en þingið kom sér saman um niðurstöðu í júní 2022.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.