Kaffitár hefur neyðst til að skera niður í rekstrinum en miklar kostnaðarhækkanir, ekki síst á heimsmarkaðsverði á kaffi, hafa reynst þungar. Rekstur kaffihúsa Kaffitárs er í gegnum Kaffihús Kaffitárs ehf. en Kaffitár ehf. heldur utan um vinnslu og framleiðslu á kaffi og tengdum afurðum á neytendamarkaði.
Kaffihús Kaffitárs hafa verið rekin með tapi frá árinu 2019, að árinu 2021 undanskildu þegar 44 milljóna króna hagnaður var af rekstrinum. Tap ársins 2022 nam 55,7 milljónum og 45,4 milljónum árið 2023. Ársreikningur ársins 2024 liggur ekki fyrir.
Eigið fé félagsins var neikvætt um 23,5 milljónir króna í árslok 2023 en hlutafé var aukið um 57 milljónir árið 2022 og um 70 milljónir árið 2023. Skuldir námu 263 milljónum króna í lok árs 2023.
Hvað Kaffitár ehf. varðar nam tap félagsins 48,1 milljónum króna árið 2023 og 20,6 milljónum árið 2022. Rekstrartekjur námu 634 milljónum árið 2023 og jukust lítillega milli ára. Eigið fé nam 75 milljónum í árslok 2023 en skuldir námu 222 milljónum.
Nýja kaffibrennslan, sem þá var í eigu Ó. Johnson & Kaaber, keypti framleiðslu og rekstur Kaffitárs árið 2018 en Kaffitár hafði þá verið í eigu Aðalheiðar Héðinsdóttur og eiginmanns hennar frá stofnun árið 1990. Kaffitár er nú í eigu Esjubergs ehf. sem er að mestu í eigu Ólafs Johnson og Helgu Guðrúnar Johnson.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.