Þýska fyrirtækið Heinemann tók við rekstri Fríhafnarinnar, dótturfyrirtækis Isavia, fyrr í mánuðinum og mun samkvæmt samningi sinna rekstrinum á Keflavíkurflugvelli næstu átta ár. Líkt og þegar Fríhöfnin sá um reksturinn er m.a. áfengi selt beint til neytenda í verslunum Heinemann, sem er einkarekið fyrirtæki.

Þannig hafa tvær tegundir einkaaðila heimild til að selja áfengi til neytenda eins og staðan er í dag en engu að síður hafa stjórnvöld haldið einokun ÁTVR til streitu.

Elías Blöndal, meðeigandi Sante, hefur nú sent fjármálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort hinu opinbera sé stætt á að banna öðrum einkareknum fyrirtækjum en brugghúsum og fríhöfnum að selja áfengi beint til neytenda.

Í bréfinu er bent á að það sé vandséð út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar hvernig rökstyðja eigi bann við því að aðrir einkaaðilar stundi sömu starfsemi. Mismunun verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, sem í tilviki áfengisverslunar eru lýðheilsusjónarmið með því að takmarka aðgengi.

„Þessi röksemd á þó augljóslega ekki við um Fríhöfnina, þar sem aðgengi að áfengi hefur verið hámarkað frekar en takmarkað, með lengri opnunartíma, auglýsingum og smökkunarborðum,“ segir í bréfinu.

Þá er vísað til atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar sem heimilar takmarkanir á atvinnufrelsi með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Þegar ríkið gangi gegn eigin reglum með því að heimila einkaaðila að selja áfengi í fríhöfn sé aftur á móti ljóst að lagaskilyrði um almannahag sé ekki lengur uppfyllt.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2016 um tiltekna þætti í rekstri Isavia ohf. kom fram að lagaákvæði um sölu áfengis í fríhöfnum væru óljós og ekki skýrt að hve miklu leyti ákvæði áfengislaga og laga um verslun með áfengi og tóbak ættu við um hana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.