Við gerð Stöðugleikasamninganna fyrir ári síðan var ákveðið að nefnd skipuð fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands myndi fylgjast með framvindu efnahagslífs og mögulegum áhrifum á markmið samninga á samningstímanum.
Fyrsti fundur launa- og forsendunefndar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fór fram fyrr í mánuðinum en þar var úrskurðað að ákvæði samningsins um kauptaxtaauka virkjist um mánaðarmótin þar sem laun á almenna markaðnum hækkuðu umfram umsamdar taxtahækkanir.
Launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkaði um 6,51% frá nóvember 2023 til nóvember 2024 en viðmiðunartaxti í kjarasamningi SGS og Eflingar hækkaði á sama tíma um 5,9%. Lágmarkskauptaxtar hækka því um 0,58%.
„Hugmyndin á bak við kauptaxtaaukann er sú að ef laun á markaði þróast umfram ákveðinn lágmarkstaxta þá sé það bætt upp árlega fremur en að það byggist upp þrýstingur til að sækja umtalsverðar kjarabætur í næstu samningalotu,“ segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins.
„Sá möguleiki var alltaf fyrir hendi að kauptaxtaaukinn gæti virkjast en við vonuðumst þó til þess að launavísitalan myndi þróast með hóflegri hætti þar sem miklar launahækkanir viðhalda þrýstingi til hækkunar verðlags. Við höfum því verið að beina kastljósinu að launaskriði og benda atvinnurekendum á að launahækkanir umfram þær sem samið var um í kjarasamningunum gætu haft þessar afleiðingar.“
Til viðbótar við kauptaxtaauka er ákvæði um framleiðniauka í Stöðugleikasamningnum, sem getur komið til árin 2026 og 2027 ef framleiðni eykst meira en gert er ráð fyrir. Eins og staðan er í dag sé það ólíklegt að það komi til framleiðniauka en miðað við nýjustu tölur er gert ráð fyrir að framleiðni hafi dregist saman í fyrra og muni einnig gera það í ár.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.