Ár er liðið frá því að langtíma kjarasamningur var undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Launa- og forsendunefnd skipuð fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ mun leggja mat á það í september hvort samningsforsendur haldi og er þar fyrst og fremst horft til þess hvort forsendur um verðbólgu hafa staðist.
„Það er að 12 mánaða verðbólga sé ekki yfir 4,95% skv. ágústmælingunni. Forsendur teljast þó hafa staðist ef 6 mánaða verðbólgutakturinn er 4,7% eða lægri miðað við árshraða. Við höfum blessunarlega náð því markmiði og gott betur en það má ekki mikið út af bregða. Einnig verður lagt mat á það hvort stjórnvöld hafi staðið við gefin fyrirheit í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana,“ segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins.
Skömmu eftir að Stöðugleikasamningurinn var undirritaður losnuðu kjarasamningar hjá hinu opinbera. Flest félög enduðu á að semja á svipuðum nótum en ákveðnar stéttir fóru fram á meiri hækkanir, einna helst læknar og kennarar. Báðar stéttir hótuðu verkfallsaðgerðum.
Læknar enduðu á að samþykkja kjarasamning í desember þar sem hækkanir voru þær sömu og á almenna markaðnum og ekkert varð af verkfallsaðgerðum. Kennarar, sem höfðu gripið til verkfallsaðgerða í einstaka skólum, sömdu aftur á móti ekki fyrr en í byrjun þessa mánaðar en þar var samið um 24% hækkun á samningstímanum.
„Um 99% almenna markaðarins hafa þegar samið en að sjálfsögðu hefur það áhrif þegar ákveðnir aðilar brjóta launastefnuna. Það hefur áhrif á meginmarkmið samninganna um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta og það grefur undan þeirri mikilvægu samstöðu sem náðist við gerð samninganna,“ segir Anna Hrefna um áhrif þessa á almenna markaðinn.
„Það er ótækt að opinberi markaðurinn skuli ítrekað brjóta þá launastefnu sem mörkuð er af almenna markaðinum enda grundvallast kjör opinberra starfsmanna á þeim verðmætum sem sköpuð eru á almenna markaðinum.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.