Lýsi hf. hefur vaxið og dafnað á undan förnum árum. Um 97% af sölu fyrirtækisins er útflutningur en neytendavörur, sem eru um 30% af vörum Lýsis, eru fluttar út til um 30 landa þar sem þær eru ýmist seldar undir merkjum Lýsis eða merkjum viðskiptavinarins. Magnvörur, sem eru ríflega 50% af vörunum, eru þá fluttar út til um 70 landa þar sem framleiðendur vinna ýmist frekari afurðir eða pakka í smærri umbúðir.
„Við seljum mjög mikið í önnur merki sem eru jafnvel að keppa við okkur. Auðvitað er þetta þunn lína en oft er okkar erfiðasti samkeppnisaðili okkar stærsti viðskiptavinur. Þetta er kúnst sem við höfum masterað hér og vinnum mjög vandlega með. Það er bara þannig að við staðsetjum okkur á öðrum stað verðlega séð, gæðalega séð, og líka kannski uppátækjalega séð, heldur en aðrir sem eru þarna úti á markaðnum að berjast fyrir plássi í hillunni,“ segir Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis til 25 ára.
„Það er hörku samkeppni á markaðinum og við fögnum því bara. Það sem við fögnum ekki er samkeppni af því tagi að menn markaðssetji einhvern óþverra vegna þess að við horfum á neytendur sem eina heild og sé vara á markaðnum sem stenst ekki þær gæðakröfur sem annars vegar regluverkið gerir og hins vegar þá neytandinn, þá hefur það auðvitað áhrif á heildarmarkaðinn.“
Hvað Ísland varðar hafi landið mikla hreinleika ímynd og þar af leiðandi hafi íslenskt lýsi sömu ímynd, sem varan stenst að öllu leyti.
„Við erum mjög víða og það er líka það að merkið okkar, þetta gamla góða, nýtur mikils trausts á markaðnum og við eigum það inni. Við berum mjög mikla ábyrgð en fyrst og fremst berum við virðingu, við berum virðingu fyrir náttúrunni og við berum virðingu fyrir neytandanum. Það er fyrst og síðast það sem skiptir máli í því sem við erum að gera og það er líka það sem ég er alin upp við, að bera virðingu fyrir því sem þér lánast. Þú átt að fara vel með það og færa áfram á næsta stig og á endanum til neytandans.“
Árið 2023 nam velta samstæðu Lýsis hf, 18 milljörðum króna og hafði aldrei verið meiri. Útlit er fyrir að heildartekjur ársins 2024 nemi um 22 milljörðum króna og EBITDA verði um þrír milljarðar, og annað eins árið 2025.
Ýmsir aðrir þættir geta haft áhrif á reksturinn en veðurfyrirbærið El Niño hafði til að mynda veruleg áhrif á vertíðina í Suður-Ameríku árið 2023. Á örfáum vikum fimmfaldaðist heimsmarkaðsverð á Omegalýsi og var það af skornum skammti lengi vel að sögn Katrínar.
„Margir fóru mjög illa út úr því og eru enn að jafna sig, eða eru kannski ekki að jafna sig. Það eru þó nokkur fyrirtæki þar sem það hafa orðið miklar breytingar á markaðnum í kjölfar þessa sem við eigum eftir að sjá hvernig spilast úr en þetta hefur náttúrulega valdið því að einhverjir hafa farið á hausinn, einhverjir hafa laskast illa, einhverjir samrunar hafa orðið til þess að reyna að bjarga sér, einhverjar yfirtökur og þess háttar. Þannig við erum að sjá svolítið breytt landslag í þessu en við hjá Lýsi vorum mjög heppin og lánsöm. Kannski byggir það á góðum, sterkum og öflugum samböndum erlendis, að við keyrðum í gegnum þetta og tókst vel til,“ segir Katrín.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.