Katrín Pétursdóttir hefur setið í forstjórastól Lýsis hf. í aldarfjórðung. Auk þeirrar þekkingar og reynslu sem Katrín hefur aflað sér sem forstjóri Lýsis hefur hún sömuleiðis komið víðar að í viðskiptalífinu og til að mynda setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og hagsmunasamtaka.
Spurð um hvernig hún sér fyrir sér þróun atvinnulífsins á Íslandi í framtíðinni segir Katrín að hér búi frábært fólk með frábærar hugmyndir og getu til að hrinda þeim í framkvæmd með þeim sjóðum og einkafyrirtækjum sem styðja við sprota.
„Þannig að ég held að framtíðin fyrir Ísland og íslenskt atvinnulíf sé björt, sé okkur búinn til sá rammi sem við þurfum á að halda og stjórnvöld búa til, það er að segja stöðugleiki í efnahagsmálum. Það er allt sem við biðjum um, stöðugleiki í vaxtastigi, í atvinnustigi, í gengisstigi – þetta er bara stöðugleiki sem við biðjum um,“ segir Katrín.
Innviðir skipti einnig töluverðu máli. Efla þurfi til að mynda vegakerfið til muna, þar sem stór innviðaskuld hefur verið að byggjast upp og mun aðeins halda áfram að vaxa að óbreyttu. Þá sé nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða í orkumálum.
„Þetta er allt orðið svolítið öfugsnúið og þegar menn eru farnir að neita því að nota auðlindir því við gætum verið að skemma fyrir næstu kynslóð, þá er það bara ekki rétt. Vatnið heldur áfram að renna til sjávar, hvort sem það er virkjað eða ekki. Við eigum og okkur ber skylda til þess að nýta gjafir náttúrunnar á sjálfbæran hátt, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur líka fyrir komandi kynslóðir,“ segir Katrín.
Ríkisfjármálin spili einnig stórt hlutverk í efnahagslegum stöðugleika en fyrirséð er að ríkissjóður verði rekinn með halla næstu ár og jafnvel út áratuginn.
„Menn hafa verið uppteknir af því að deila út fé skattborgarans í rangar áttir. Þá er ég vel að merkja að tala um fyrir Covid, vegna þess að þegar Covid skellur á þá var ekkert annað að gera og menn stýrðu því mjög vel. Svo kemur Grindavík og menn stýrðu því einnig mjög vel. Það hjálpar náttúrulega ekki til í þessari þróun í átt að uppbyggingu þeirra hluta sem þarf að byggja upp,“ segir Katrín.
Þó sé hægt að ná viðsnúningi í rekstri ríkisins en þar mætti ekki síst horfa til einkavæðingar. „Af hverju á ríkið að reka eitthvað sem þau geta bara alls ekki rekið, það er bara furðulegt. Svo fyrir utan það að aukin einkavæðing myndi veita ríkinu aðhald í sínum rekstri. Það verður að taka á þessu,“ segir Katrín.
„Það gildir sá frumréttur frjálshyggjunnar að einstaklingurinn hafi frelsi til athafna og honum sé ekki gert það ómögulegt að eignast þak yfir höfuðið, honum sé ekki gert það ómögulegt að virkja sitt hugvit í einkaþágu eða í þágu annarra, að það sé hlúð að því, þá ertu með farsæla dýnamík innan hagkerfisins, þessa litla hagkerfis,“ segir hún. „Einstaklingar og fyrirtæki eiga rétt á umhverfi sem veitir þetta frelsi og veitir þennan stöðugleika. Það er allt og sumt.“
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.