Hvalur hf. var rekið með 224 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári, sem nær yfir tímabilið 1. október 2023 til 30. september 2024. Um var að ræða verulegan viðsnúning frá fyrra rekstrarári er hagnaður félagsins nam tæplega 3,5 milljörðum. Tekjur Hvals drógust saman um 7,3 milljarða, eða 84%, á milli rekstrarára, úr 8,7 milljörðum í 1,4 milljarða.
Í ársreikningi kemur fram að Hvalur hyggist höfða mál á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar bótaskyldu vegna þess tjóns sem félagið telur sig hafa beðið vegna ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, um að stöðva hvalveiðar tímabundið sumarið 2023.
Hvalur hafi áður óskað eftir viðræðum við ríkið um uppgjör fjárbóta en þær ekki leitt til niðurstöðu og ríkið ekki fallist á bótaskyldu. Byggir félagið á að ákvörðunin hafi verið andstæð lögum og vísar m.a. því til stuðnings til álits umboðsmanns Alþingis, þar sem fram kom að frestun upphafs hvalaveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar.
Jafnframt standi til að tilteknir einstaklingar muni höfða mál sem verði „prófmál“ gagnvart öðrum sem eins er ástatt um, til greiðslu á vangoldnum launum vegna hvalavertíðar 2023. Hlutaðeigendur líti svo á að komið hafi verið á bindandi ráðningarsamband og þeir eigi rétt á fullum vertíðarlaunum sem Hvalur hafi mótmælt.
Reynist sú forsenda á annað borð rétt, og launakröfur þannig fyrir hendi sem gætu numið verulegum fjárhæðum sem Hvalur geti upplýst betur um, telji félagið að slíkt hafi áhrif á fjárhæð bótakröfu gagnvart ríkinu til hækkunar þar sem sparnaði í formi launakostnaðar vegna þess tímabils sem bannið varði, án tekna á móti af hvalveiðum, sé þá raunar ekki að dreifa.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.