Grunnskóli Fjallabyggðar fór með sigur af hólmi í Fjármálaleikunum í ár, landskeppni grunnskólanna í fjármálalæsi, sem fór fram í áttunda sinn 17. – 24. mars í tilefni af alþjóðlegri fjármálalæsisviku. Vel á annað þúsund nemendur í grunnskólum um land allt tóku þátt. Þetta var í annað skiptið sem krakkarnir í Fjallabyggð sigra keppnina en fast á eftir þeim fylgdu Vogaskóli, Hlíðaskóli og Austurbæjarskóli. Grunnskóli Fjallabyggðar mun senda tvo fulltrúa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni ungmenna í fjármálalæsi sem fram fer í Brussel í maí.

Í Fjármálaleikunum er keppt í fjölbreyttum spurningum í gegnum netleik sem hannaður er með þekkingarramma PISA í huga. Spurningarnar snúast m.a. um að geta reiknað vexti á lán og sparnað, að vita um hvað tryggingar snúast, þekkja réttindi og skyldur á vinnumarkaði, átta sig á lífeyrissparnaði og kunna ýmislegt um t.d. gengissveiflur og verðlagsþróun.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá bæði fjölmenna skóla og úr nýjum sveitarfélögum koma sterka inn í keppnina í ár en markmiðið með keppni sem þessari er einmitt að leyfa sem flestum nemendum að spreyta sig á skemmtilegum spurningaleik um fjármál og minna um leið á áhersluna á gott fjármálalæsi,“ segir Kristín Lúðvíksdóttir verkefnisstjóri Fjármálavits, fræðsluvettvangs SFF um fjármálalæsi, sem stendur að keppninni. Fjármálavit er einnig stutt af Landssamtökum lífeyrissjóða.

Kristín Lúðvíksdóttir verkefnisstjóri Fjármálavits.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stelpur skora hærra en strákar

Kristín segir að heilt yfir standi nemendurnir sem taki þátt í keppninni nokkuð vel þegar kemur að þekkingu á fjármálum. Þegar rýnt er í niðurstöðurnar skori stelpur aðeins hærra en strákar og stelpur sem búa á höfuðborgarsvæðinu skori hæst.

„Það var mikill metnaður í keppendum, margir af efstu skólunum mjög háir og afar mjótt á munum. Þau eru almennt góð í þáttum er snúa að persónulegum fjármálum og heimilisrekstri og nærumhverfi þeirra. En þegar kemur að spurningum um hvað felst í því að vera á vinnumarkaði og flóknari fjármálahugtökum þá fara málin að verða flóknari. Við sjáum það á niðurstöðum undanfarin ár að skólarnir sem eru að skora hæst eru flestir að taka fjármálalæsi föstum tökum í kennslunni og þar skiptir hvatning kennaranna sköpum,“ segir Kristín.

Vel á annað þúsund nemendur í grunnskólum um land allt tóku þátt.

Hins vegar sé staða þeirra nemenda sem ekki taki þátt í leikunum og fái ekki fjármálafræðslu á sinni skólagöngu meira áhyggjuefni. Freistingarnar fyrir ungt fólk séu fleiri en áður og auðvelt getur verið að gera mistök í fjármálum snemma á lífsleiðinni sem fylgt geta ungu fólki út í lífið.

„Ég er mjög stolt af nemendum mínum og sem kennari hef ég áhuga á fjármálalæsi og finnst mikilvægt að nemendur fái góða kennslu í því,“ segir Sigurlaug Ragna Guðnadóttir er kennari sigurvegaranna í grunnskóla Fjallabyggðar. „Í skólanum mínum tökum við kennslu í fjármálalæsi alltaf í 10. bekk og mér finnst frábært að hafa Fjármálaleikana því þeir auka áhuga nemenda. Ef kennari hefur áhuga þá er líklegra að nemendur fái áhuga,“ bætir Sigurlaug við.

Fréttin birtist í sérblaðinu SFF dagurinn - Breyttur heimur, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.