Uppbygging landeldisstöðvar First Water í Þorlákshöfn er hafin af fullum krafti. Stefnt er á að 50.000 tonna landeldisstöð verði byggð upp í 6 fösum og verði komin í fulla vinnslu árið 2029.
Hver fasi verkefnisins stendur yfir í eitt til tvö ár og kallar hver þeirra á ákveðið fjármagn en fyrirtækið hefur sett fram áætlun fyrir hvern fasa verkefnisins. Fyrsti fasi, sem stefnt er á að ljúka á næsta ári, kallar á 137 milljónir evra fjárfestingu, eða tæplega 20 milljörðum króna.
Fjármagnsþörf í fasa tvö nemur 98 milljónum evra, 110 milljónum evra í fasa þrjú, 101 milljón evra í fasa fjögur, 115 milljónum í fasa fimm, og 104 milljónum í fasa sex. Vinnslustöðin sem stefnt er á að rísi árið 2027 kallar á 80 milljóna evra fjármagn og seiðaeldisstöð 56 milljónir evra auk þess sem 22 milljónir evra fara í að koma upp spennistöð fyrir rafmagn.
Samanlagt nemur fjárfesting í verkefninu fram til ársins 2029 823 milljónum evra, eða um 120 milljörðum króna. Árleg fjárfestingarútgjöld nemi þá 21 milljón evra þar á eftir. Tekjur verði síðan rúmlega 30 milljarðar króna frá árinu 2031. Stefnt er á að skrá félagið á markað í lok árs 2026.
Árið 2023 var hlutafé félagsins aukið um 82 milljónir evra og í síðustu viku var greint frá því að First Water hafi náð samkomulagi við Landsbankann og Arion banka um 80 milljóna evra fjármögnun, eða sem nemur um 12 milljörðum króna. Er fyrsti fasi þar með fjármagnaður að fullu.
Frá því í mars sl. hefur fyrirtækið sömuleiðis verið í viðræðum við fjárfestingabankann Lazard í London um 200 milljóna evra fjármögnun sem nær yfir næstu fasa. Í framhaldinu verður félagið fjármagnað með bankalánum sem koma líklega erlendis frá.
„Það tekur allt langan tíma í þessu, það tók t.d. heilt ár að fá bankalánið sem við vorum að tryggja í síðustu viku. Þetta er ekki einfalt en þetta er skemmtilegt. Við erum að fara út núna eftir jól að hitta fjárfesta og þá hefjast kynningarfundir. Þannig við ættum að vita í byrjun mars sirka hvenær við klárum þetta,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.