Ýmislegt er að athuga við nýlegar staðhæfingar um að helmingur launafólks hér á landi nái ekki endum saman. Fréttaflutningur og umræða þess efnis byggir á svörum könnunar sem aðeins var ætlað að ná til tekjulægri hóps 80% launþega á vinnumarkaði og var auk þess sérstaklega hönnuð til að ná sem best til innflytjenda, eins tekjulægsta hóps samfélagsins.

Erfitt hefur reynst að fá svör frá þeim hóp í almennum rannsóknum á lífskjörum hér á landi og því var annarri aðferðafræði beitt en algengast er við slíkar rannsóknir. Það skilaði sér í því að 29% svarenda voru innflytjendur en til samanburðar eru innflytjendur um 22% vinnumarkaðarins og undir 20% allra íbúa.

Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins kynnti í þarsíðustu viku niðurstöður viðamikillar könnunar á stöðu launafólks á Íslandi sem stofnunin hefur framkvæmt árlega síðustu þrjú ár.

Í 89 blaðsíðna skýrslu eru aðferðafræði, framkvæmd og niðurstöður könnunarinnar ítarlega útlistuð. Niðurstöður flestra spurninga eru reifaðar og sundurliðaðar bæði í töfluformi og texta.

Meðal niðurstaðna er að 44,1% svarenda segjast eiga erfitt með að ná endum saman, en sé horft fram hjá þeim sem ekki vildu svara var hlutfallið 45,7%. Meirihluti þess hóps sagði það „nokkuð erfitt“ á meðan 18,5% svarenda sögðu það „erfitt“ eða „mjög erfitt“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.