Talsverðar breytingar verða á ferli rammaáætlunar ef frumvarp ráðherra nær fram að ganga, en því er ætlað að bæta málsmeðferð og auka skilvirkni í ferlinu öllu. Samkvæmt lögunum ber ráðherra að leggja fram þingsályktunartillögu með flokkun virkjunarkosta eigi síður en á fjögurra ára fresti en það tók hátt í áratug að afgreiða þriðja áfanga rammans.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu að pólitísk tregða hefði verið meðal orsaka þess hve hægt hefur gengið að koma af stað nýframkvæmdum. Sjálfur hefur hann boðað að rammaáætlun verði lögð fram eins oft og þurfa þykir.
Samkvæmt frumvarpinu fá t.a.m. virkjunaraðilar aukið svigrúm en stofnunum og öðrum aðilum verður aftur á móti gert að leggja fram skýrar kröfur um gögn strax í upphafi og láta virkjunaraðila vita eins fljótt og auðið er ef þörf er á frekari upplýsingum. Þá er vægi nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar aukið en henni er ætlað að hafa fulla yfirsýn yfir allar virkjunarhugmyndir rammaáætlunar og lögbundin gögn. Loks eru tímamörk sett á verkefnisstjórn og ráðherra.
Nær allir sem skiluðu inn umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar vegna frumvarpsins voru jákvæðir í garð breytinganna, en taka mætti stærri skref. Þá kom fram gagnrýni frá sveitarstjórnum en í frumvarpinu er kveðið á um að sveitarfélög hafi 5 ár í stað 14 til að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt rammaáætlun.
Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að hvorki eigandi lands né sveitarfélög eigi að geta komið í veg fyrir nýtingu takmarkaðra auðlinda landsins ef nýtingin er metin skynsamleg og í almannaþágu af Alþingi.
Í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka orkusveitarfélaga segir að um sé að ræða verulega þrengingu á núgildandi ákvæði, sem hafi þegar verið umdeilt við setningu laganna. Inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga sem finna megi í lögunum sé undantekning og því varhugavert að þrengja um of það svigrúm sem sveitarfélög hafa til að aðlaga skipulag sitt að verndar- og orkunýtingaráætlun.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.