Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur mælt fyrir ýmsum frumvörpum á sviði orkumála á síðustu mánuðum en þar á meðal er frumvarp um breytingar á ýmsum lögum vegna einföldunar og samræmingar leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála, sem snúa meðal annars að virkjunum.
Eftir að virkjunarkostur hefur verið afgreiddur af Alþingi tekur annað eins ferli við, þar sem oft er leitað til sömu aðila á mismunandi tímapunktum í ferlinu. Í gegnum tíðina hefur reynst nauðsynlegt að fá álit eða leyfi frá landeigendum, sveitarstjórnum, Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun, Umhverfis- og orkustofnun og tveimur ráðuneytum.
Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um heimild Umhverfis- og orkustofnunar til að sameina leyfisveitingu og heimildir sem falla undir valdsvið annarra stjórnvalda, sé heimild fyrir því í viðkomandi sérlögum. Þá verða virkjanir sem falla undir verndar- og orkunýtingaráætlun í forgangi við afgreiðslu leyfa.
Ráðherra hefur þá lagt fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda sem felur í sér breytingar á fleiri lagabálkum og er ætlað að tryggja samspil rammaáætlunar og pólitískrar stefnumörkunar stjórnvalda um raforkuöflun til framtíðar.
Þannig verði ráðherra falið að leggja á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til
þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um öflun raforku til næstu tíu ára sem horft verði til við gerð verndar- og orkunýtingaráætlunar hverju sinni. Miðað er við að slík tillaga verði fyrst lögð fram á næsta ári.
Í tilkynningu um frumvarpið á vef Stjórnarráðsins segir að ríkisstjórnin hafi sammælst um að vinna að breiðri sátt um lagaumgjörð vindorkunýtingar og að sjá til þess að raforkulögum verði breytt til að tryggja forgang heimila og almennra notenda. Þá hafi stjórnvöld einsett sér að ýta undir orkuskipti í samgöngum og iðnaði, vinna gegn losun frá landi og greiða götu tæknilausna og nýsköpunar á sviði loftslagsmála.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.