Tæknifyrirtækið KAPP hefur vaxið hratt undanfarin ár. Í haust gekk KAPP Skaginn, sem er í meirihlutaeigu KAPP ehf., hefði komist að samkomulagi um kaup á öllum búnaði og lausafé þrotabús Skagans 3X á Akranesi. Þá var gengið frá kaupum á bandaríska félaginu Kami Tech á dögunum.

Ólafur Karl Sigurðarson, aðstoðarforstjóri KAPP, segir að félagið sé með metnaðarfull vaxtaráform á næstu árum en þau séu með sterkt bakland fyrir komandi verkefni.

„Félagið KAPP hefur verið vaxa bæði með innri og ytri vexti í gegnum tíðina og þar af leiðandi eru eigendur, stjórnendur og starfsmenn vanir yfirtökum á nýjum félögum og samþættingu á starfsemi þeirra. Helsti munurinn á kaupunum núna og þeim kaupum sem KAPP hefur farið í áður, er kannski sá að núverandi kaup á eignum Skagans 3X og Kami Tech Inc er mun stærri aðgerðir en áður hefur verið farið í,“ segir Ólafur Karl. Aðspurður hvort KAPP horfi til frekari ytri vaxtar á næstunni útilokar hann það ekki ef augljós samlegðaráhrif eru til staðar.

„Við erum alltaf með augun opin fyrir tækifærum, en að sama skapi erum við með algjöran fókus á það núna að innleiða þau fyrirtæki sem við höfum fjárfest í og að gera það vel. Við lokum ekki á það ef það eru tækifæri þarna úti á fleiri yfirtökum en eins og staðan er núna þá er leikkerfi okkar, ef ég get orðað það þannig, að einblína á það sem við höfum þegar fjárfest í. Við erum því með áherslu á að halda vel utan um rekstur KAPP, KAPP Skagans og Kami Tech og tryggja að við séum að betur um bæta reksturinn. Það er mikilvægt að við tökum okkur ekki meira í fang en við ráðum við. Það eru stór skref sem hafa verið tekin á þessu ári og það þarf dug og þor að taka slíkar ákvarðanir, og við viljum tryggja það að við séum að taka eitt skref í einu,“ segir Ólafur.

Til viðbótar við kaupin á Kami Tech í Bandaríkjunum og eignum úr þrotabúi Skagans 3X á Akranesi hefur KAPP lokið sölusamningum við bæði innlenda og erlenda aðila frá opnun félagsins í byjun nóvember.

„Ein af áherslum okkar er að vera í nálægð við viðskiptavininn og skilja hans þarfir. Þetta hefur skilað okkur sölusamningum bæði hérlendis og erlendis á þessum stutta tíma. Samhliða þessu erum við í þeirri vinnu að styrkja frekar bæði sölu- og þjónustunet okkar, svo við getum tryggt nálægð við bæði markaðinn hér heima sem og erlendis. Við erum að horfa á Evrópu, Bandaríkin, Suður-Ameríku og Asíu, þannig við erum ekki að einskorða okkur við ákveðin landsvæði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.