Talsverður munur er á launum stjórnar- og stjórnarformanna eftir tegund fyrirtækja samkvæmt nýrri samantekt Attentus og PwC á Íslandi. Drífa Sigurðardóttir, einn eigenda Attentus, lýsir því að hugmyndin að samantektinni hafi komið eftir að sænskt ráðgjafafyrirtæki kynnti samantekt á þróun stjórnarlauna í Svíþjóð, Danmörku og Noregi síðustu ár. Hún hafi í kjölfarið haft samband við PwC og viðraði hugmyndina en fljótlega byrjaði boltinn að rúlla.

Hafsteinn Már Einarsson, stjórnandi markaðslausna og greininga hjá PwC á Íslandi, segir að það hafi strax verið ljóst að um áhugavert viðfangsefni væri að ræða.

„Við erum til margra ára búin að gefa út skýrslur um markaðslaun á Íslandi og höfum því mjög mikla reynslu og þekkingu í að skoða launamálin, þó að við höfum kannski ekki skoðað þennan hóp sérstaklega áður, þ.e. stjórnarmenn,“ segir Hafsteinn en hlutverk stjórna hafi breyst og ábyrgð þeirra aukist til muna á síðustu árum. Síauknar kröfur opinberra aðila og Evrópusambandsins spili meðal annars inn í en spurningin sé hvort stjórnarlaun hafi fylgt almennri launaþróun.

„Það þarf að gæta að því að þarna er ekki alveg hægt að bera saman epli og epli en þetta eru samt stór félög sem eru á markaðnum, stór ríkisfyrirtæki og svo lífeyrissjóðir með gríðarlega miklar eignir undir og þarna eru, myndi ég segja, í öllum tilvikum mjög stór og mikilvæg fyrirtæki undir, þó það sé auðvitað talsverður munur þar á. En engu að síður slær það mig hvað það er mikill munur á launum.“

Drífa bendir líkt og Hafsteinn á að áhersla á þekkingu og reynslu innan stjórna hafi aukist hratt en þegar horft er til launa stjórnarmanna þurfi að hafa í huga að þau eru breytileg og ráðast að miklu leyti af umfangi og eðli starfseminnar.

„Þó að stjórnarseta per se sé kannski sambærilegt verkefni þá eru fyrirtækin bara á mjög mismunandi stað,“ segir Drífa. Laun stjórnarmanna ráðist meðal annars af stærð fyrirtækis, flækjustigi reksturs og rekstrarformi og eigendastefnu.

Stærri fyrirtæki með umfangsmikla starfsemi, hærri veltu og fleiri starfsmenn greiði jafnan hærri þóknun og hjá fyrirtækjum sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum eða á fjármálamarkaði og lúta flóknu regluverki taki þóknun fyrir stjórnarsetu mið af því.

Þá geti mismunandi viðmið gilt eftir því hvort um sé að ræða opinber hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög eða félög í almannaþágu, t.d. lífeyrissjóðir. Staðsetning og markaður geti einnig skipt máli en stjórnarmenn í félögum sem starfa á samkeppnismörkuðum eða eru skráð á hlutabréfamarkað sæti oft öðrum væntingum og viðmiðum en stjórnarmenn í minni eða staðbundnum félögum.

„Mikilvægt er að horfa ekki eingöngu á laun stjórnarmanna sem greiðslu fyrir þátttöku í fundum heldur sem endurgjald fyrir þá ábyrgð, sérfræðiþekkingu og tíma sem krafist er af þeim til að sinna hlutverki sínu með ábyrgð og fagmennsku,“ segir Drífa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.