Um áramótin tóku gildi ný lög um gjald á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur gildi. Fjárhæð gjaldsins fer eftir nikótínmagni og leggst á vöruverð við innflutning.
Bjarni Freyr Guðmundsson, rekstrarstjóri og annar eigenda heildverslunarinnar Duflands, sem flytur meðal annars inn nikótínpúða frá merkjunum Velo og Loop, segir gjaldtökuna eðli málsins samkvæmt hafa mikil áhrif á rekstrarumhverfi verslana og innflutningsaðila. Þá setur hann spurningamerki við yfirlýst markmið stjórnvalda með lagasetningunni.
„Þegar horft er yfir sögu skattlagningar á neftóbaki þá segir sagan okkur að skattlagning sé ekki eins áhrifarík til að draga úr neyslu neytenda eins og stjórnvöld vilja meina, en sala neftóbaks jókst gríðarlega í kjölfar ofurskattlagningu frá árinu 2010 til 2018. Hins vegar er skattlagningin áhrifarík við að auka ríkistekjur, sem er meginástæða þess að gjöldin voru lögbundin í flýti í kjölfar frétta um mikinn ríkishalla á árinu 2025,“ segir Bjarni en upprunalega var áætlað að gjaldtakan myndi skila ríkissjóði 5,7 milljörðum króna í tekjur.
Þá geri stjórnvöld strangari kröfur um innflutning á nikótínvörur en innflutningsaðilar þurfi að sækja um leyfi fyrir markaðssetningu og eru kröfur meiri um merkingar og aðvaranir á umbúðum.
„Síðustu misseri höfum við tekið eftir töluverðu magni af vörum sem stangast á við þessi lög og hafa í einhverjum tilfellum verið teknar úr umferð. Hækkun á vöruverði vegna ríkisgjalda getur ýtt undir freistingu hjá aðilum að flytja inn til landsins og selja vörur sem uppfylla ekki lög um merkingar og eru þar af leiðandi ólöglegar. Við stólum á að eftirlitsaðilar sinni eftirfylgni við að lögum sé framfylgt. Það er ekki nóg að setja lög heldur þarf ríkið að tryggja að þeim sé framfylgt.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.